Halldór: Frumvarpið til að tryggja fjölbreytni í rekstri fjölmiðla

Halldór Ásgrímson svarar spurningum fréttamanna í stjórnarráðinu í gær.
Halldór Ásgrímson svarar spurningum fréttamanna í stjórnarráðinu í gær. mbl.is/Árni Torfason

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði eftir þingflokksfund Framsóknarflokks í dag, þar sem frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum var samþykkt, að frumvarpið væri lagt fram til að að tryggja fjölbreytni í rekstri fjölmiðla. Sagðist Halldór telja, að það sé mjög mikilvægt að fjölbreytni sé sem mest í þessum rekstri og ekki sé eðlilegt að dagblöð og sjónvarp og útvarp séu innan sama fyrirtækisins.

Fréttamenn ræddu við Halldór eftir þingflokksfundinn og fara spurningar þeirra og svör Halldórs hér á eftir:

Spurning: Lögðuð þið fram fjölmiðlafrumvarpið á þessum þingflokksfundi?

Halldór: Já, við gerðum það, það var samþykkt að leggja það fram.

Spurning: Var einhugur um frumvarpið?

Halldór: Já það var samþykkt.

Spurning: Var einhver sem lagðist gegn þessu frumvarpi?

Halldór: Nei.

Spurning: Munu allir þingmenn greiða atkvæði með þessu frumvarpi?

Halldór: Ég á von á því, en það á eftir að fjalla um það í þinginu. Á eftir að taka það fyrir í nefnd og ræða það hér og síðan á eftir að kalla á aðila... Ég vil ekki útiloka einhverjar breytingar á því.

Spurning: Voru einhverjar breytingar ræddar á þingflokksfundi?

Halldór: Nei, það var nú ekki rætt, það er eðlilegt að þetta mál fái eðlilega umfjöllun hér í þinginu og svo sjáum við til.

Spurning: Samþykkti þingflokkurinn frumvarpið af þinni hálfu eins og það kom frá þér?

Halldór: Já

Spurning. Nú hefur verið sagt að þetta frumvarp hafi í för með sér eignauppnám, hverju svararðu því?

Halldór: Það tel ég alls ekki. Þetta frumvarp fjallar um þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til þess að fyrirtæki fái heimild til að reka sjónvarp og útvarp. Þetta eru takmörkuð gæði, rásirnar eru takmarkaðar og ég tel að það sé eðlilegt að slíkt skilyrði sé, enda eru skilyrði líka í ýmsum öðrum löndum.

Spurning: Hver er aðlögunartíminn?

Halldór: Það er gert ráð fyrir því að hann sé tvö ár.

Spurning: Snertir þetta frumvarp hvorki Morgunblaðið né Ríkisútvarpið?

Halldór: Þetta snertir alla fjölmiðla sem eru á þessum markaði að einhverju leyti en það snertir ekki dagblöð. Það er ekkert komið inn á rekstur dagblaða í þessu sambandi, það er eingöngu af því er varðar fjölmiðla sem eru að reka útvarp og sjónvarp og eru með leyfi frá ríkinu til þess. Dagblöð eru ekki háð leyfum, hafa aldrei verið það og það er engin tilraun gerð til slíks í þessu frumvarpi.

Spurning. Hvað með upphaflegu tillögur Davíðs Oddssonar um að krefjast leyfis til dagblaðarekstrar?

Halldór: Það hefur verið rætt en niðurstaðan er sú að það verður ekki gert.

Spurning: Nú hefur sú umræða verið að þetta frumvarp sé fram komið til að brjóta upp Norðurljós?

Halldór: Það er alls ekki rétt. Hins vegar finnst mér eðlilegt til þess að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlarekstri að dagblöð séu aðskilin frá sjónvarps- og útvarpsrekstri. það er einfaldlega mín skoðun.

Spurning: Hvers vegna?

Halldór: Til þess að tryggja fjölbreytni í þessum rekstri. Ég held það sé mjög mikilvægt að fjölbreytni sé sem mest og mér finnst ekki eðlilegt að dagblöð og sjónvarp og útvarp sé allt í sama fyrirtækinu. Þetta er ekki venjulegur atvinnurekstur. þetta er annars konar rekstur en gengur og gerist.

Spurning: Hefur þetta ástand ekki blasað við í töluvert langan tíma?

Halldór: Jú,jú það hefur blasað við í nokkuð langan tíma. En ég held að það sé uppi meiri samþjöppun á þessum markaði en við höfum oft séð áður og það er eðlilegt að það sé tekið á því.

Spurning: Eru engin takmörk á því hvað fyrirtæki mega eiga marga ljósvakamiðla ef þau eigi ekki dagblöð?

Halldór: Það liggur alveg ljóst fyrir í sambandi við ljósvakamiðlana að það fer eftir þeim rásum sem eru til úthlutunar af útvarpsréttarnefnd.

Spurning:Verða teknar einhverjar rásir af Norðurljósum?

Halldór: Ég veit ekki til þess, það er eingöngu verið að tala um það að þetta sé háð þessum leyfum og það er aðlögunartími í því.

Spurning: Kostnaður fyrir ríkissjóð?

Halldór: Ekki veit ég til þess.

Spurning: Er það rétt skilið að í frumvarpinu segir að þeir sem reka sjónvarp eða útvarp megi ekki reka dagblöð?

Halldór: Það segir að þeir sem fá heimild til þess að reka sjónvarp og útvarp.

Spurning: Nú er ríkisútvarpið í öðrum rekstri, er það í fullkomnu lagi miðað við þetta?

Halldór: Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál neitt frekar, ég er búinn að svara ykkar spurningum og svo verður þetta mál rætt hér í þinginu. frumvarpinu verður dreift á miðvikudaginn.

Spurning: En ertu sáttur við stöðu ríkisútvarpsins?

Halldór: Ég er ekkert sérstaklega sáttur við stöðu ríkisútvarpsins. Ég tel að ríkisútvarpið sé á margan hátt heldur veikt og ég tel að við þurfum að eiga öflugt ríkisútvarp. ég tel að það sé rétt að breyta afnotagjaldakerfinu og afnema það, það er atriði sem við þurfum að taka á.

Spurning: En hvers vegna þessi 25%?

Halldór: Tuttugu og fimm prósent er að okkar mati hæfilegt hlutfall til þess að tryggja dreifða eignaraðild í slíkum fjölmiðlum.

Spurning: En nú á Baugur til dæmis 30% í Norðurljósum, hvers vegna var ekki ákveðið að í frumvarpinu yrði gert ráð fyrir sama hlutfalli svo ekki þyrfti að hreyfa við núverandi ástandi?

Halldór: Ég bara segi að það er að mínu mati hæfileg dreifing á svona fjölmiðlum.

Spurning: Hvernig var það metið?

Halldór: Það var farið yfir það og rætt um ýmsar prósentur, 15%, 25% og 35% og þetta var niðurstaðan.

Spurning: Óttastu ekkert að þetta frumvarp kippi grundvellinum undan rekstri Norðurljósa?

Halldór: Ég get ekki séð það. Það liggur fyrir að Norðurljós þarf að aðskilja ákveðinn rekstur og ég vænti þess að það verði þeim tiltölulega léttbært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert