Heimilt eftir tvö ár að afturkalla útvarpsleyfi uppfylli fyrirtæki ekki skilyrði nýrra laga

Frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum verður til umræðu á Alþingi …
Frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum verður til umræðu á Alþingi síðar í vikunni.

Samkvæmt frumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum, sem þingflokkar stjórnarflokkanna samþykktu í dag, eru settar ýmsar skorður við að veita fyrirtækjum leyfi til útvarps. Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða um að þeir sem lögin taki til skuli hafa lagað sig að þeim kröfum, sem lögin gera, innan tveggja ára frá gildistöku þeirra. Verður útvarpsréttarnefnd heimilt, að afturkalla útvarpsleyfi þeirra, sem hún telji ekki uppfylla skilyrði laganna að þeim tíma.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að ljóst sé að fyrirvaralaus gildistaka laganna geti haft nokkra röskun í för með sér fyrir þá aðila sem þar starfa og ekki uppfylla kröfur laganna. Af þeim sökum, með vísan til meðalhófs, þyki rétt að ætla þeim nokkurn tíma til að laga sig að breyttum starfsskilyrðum og þyki tvö ár hæfilegur tími í því skyni.

Frumvarpið er þrjár greinar, sem kveða á um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Fyrsta greinin er um nýja málsgrein í útvarpslögum sem er eftirfarandi:

Útgáfa útvarpsleyfi er háð eftirfarandi skilyrðum:

    a. Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi, sem að hluta eða öllu leyti er í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamsteypu í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta. Þá er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki á meira en 25% eignarhlut í því. Sömuleiðis er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi, ef fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamsteypu eiga samanlagt meira en 25% eignarhlut í því. Jafnframt er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef það eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamsteypu eiga hlut í útgefanda dagblaðs eða það er að hluta eða öllu leyti í eigu slíks félags.

    b. Ákvæði a-liðar á einnig við ef á milli fyrirtækja eru önnur náin tengsl en samstæðutengsl sem leitt geta til yfirtöku.

    c. Með umsóknum um útvarpsleyfi skulu fylgja upplýsingar sem gera útvarpsréttarnefnd kleift að meta hvort skilyrðum a- og b-liðar sé fullnægt og útvarpsréttarnefnd telur nauðsynlegt. Við mat á því hvort fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða sé í markaðsráðandi stöðu skal útvarpsréttarnefnd leita álits Samkeppnisstofnunar.

    d. Skylt er þeim aðilum sem útvarpsleyfi hafa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um allar breytingar sem verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum sem kveðið er á um í a- og b-lið. Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað útvarpsleyfi, ef breytingar verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum þannig að í bága fari við ákvæði a- og b-liðar. Þó skal veita leyfishafa frest í allt að 60 daga til að koma eignarhaldi eða öðrum skilyrðum í það horf, að samrýmist ákvæðunum.

    e. Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum a- og b-liðar ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.

2. grein frumvarpsins er um viðbót við samkeppnislög, svohljóðandi: Samkeppnisstofnun skal láta útvarpsréttarnefnd í té álit, skv. c-lið 4. mgr. 6. gr. útvarpslaga. Samkvæmt þriðju grein frumvarpsins öðlast lögin þegar gildi.

Þá er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða, sem kveður á um 2 ára aðlögunartíma eins og áður sagði.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að meginmarkmið þess sé að sporna við því að eignarhald á fjölmiðlafyrirtækjum og samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hamli gegn æskilegri fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi. Sé frumvarpið reist á almennt viðurkenndum viðhorfum um mikilvægi fjölmiðla fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi í nútíma lýðræðisþjóðfélagi.

„Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki sem vettvangur ólíkra viðhorfa til stjórnmála, menningar og samfélagslegra málefna í víðum skilningi. Þeir eru því mikilvæg forsenda þess að einstaklingar fái notið tjáningar- og skoðanafrelsis. Af þessu mikilvæga hlutverki fjölmiðla sprettur sú krafa í lýðræðisþjóðfélagi, að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum. Í frumvarpinu er byggt á því að íslensk löggjöf eigi að vera til þess fallin að vernda þessa hagsmuni."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert