Mikill fjöldi vildi hlýða á umræðu um fjölmiðla á Alþingi

mbl.is/Júlíus

Starfsfólk Norðurljósa hefur fjölmennt í Alþingishúsið þar sem 1. umræða um frumvarp Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, um eignarhald á fjölmiðlum, fer fram í dag. Aðeins um 30 manns var hleypt á þingpalla Alþingishússins og er því stór hópur fólks utan við húsið og á Austurvelli. Greiða þurfti atkvæði um það, áður en umræðan hófst, hvort veitt yrðu afbrigði svo frumvarpið kæmist á dagskrá, og greiddu stjórnarandstæðingar atkvæði gegn því en afbrigðin voru samþykkt með atkvæðum stjórnarþingmanna.

Fram kom hjá Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þingmanni Frjálslynda flokksins, að hann hefði litið út um glugga þinghússins og séð fólk á Austurvelli veifa banönum. Þetta væri í fyrsta skipti sem þeim ávöxtum hefði verið veifað utan við Alþingishúsið og gætu menn túlkað það með sínum hætti. „Af ávöxtunum skulum við þekkja þá," sagði Halldór Blöndal, forseti Alþingis, þá.

Davíð Oddsson hóf að mæla fyrir frumvarpinu um klukkan 15:50. Gert er ráð fyrir að fyrstu umræðu um frumvarpið verði lokið í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert