Davíð Oddsson: Ekki séríslenskt fyrirbæri að stemma stigu við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum

Davíð Oddsson mælir fyrir fjölmiðlafrumvarpinu á Alþingi í dag.
Davíð Oddsson mælir fyrir fjölmiðlafrumvarpinu á Alþingi í dag. mbl.is/ÞÖK

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í framsögu fyrir svonefndu fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á Alþingi, að því færi fjarri að tilraunir til að stemma stigu við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum væru séríslenskt fyrirbæri; jafnvel þótt aðstæður í öðrum löndum ættu sér enga hliðstæðu við það sem hér á landi væri raunin.

Leita þurfti afbrigða fyrir því að fá frumvarpið tekið á dagskrá. Eftir nokkrar umræður um hvort veita ætti afbrigði var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 27 að frumvarpið kæmist á dagskrá.

Davíð sagði að með frumvarpinu væri verið að setja almennar reglur um að hér á landi kæmist á sú fjölbreytni í fjölmiðlun sem stjórnvöld væru þjóðréttarlega skulbundin til að tryggja. Alls staðar meðal siðaðra þjóða hefðu á undanförnum árum og áratugum gilt reglur til að koma í veg fyrir að öflug félög sölsi undir sig fjölmiðla. Hér á landi væri komin upp afar óæskileg staða á fjölmiðlamarkaði þar sem nær allir einkareknir fjölmiðlar væru á einni hendi sem væri eitt stærsta fyrirtæki landsins. Hvergi þekktist á byggðu bóli að markaðsráðandi fyrirtæki á matvælamarkaði væri jafn ráðandi í fjölmiðlum og hér.

Forsætisráðherra sagðist telja að þótt einhverjum núverandi flokka á Alþingi hefði fipast þegar út í alvöruna væri komið hefðu þeir allir á einhverju stigi verið því sammála að setja þyrfti reglur til að stemma stigu við slíkri samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlamarkaði sem nú blasti við.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, lýsti andstöðu flokksins við frumvarpið. Hann sagði það höggva nærri athafnafrelsi og tjáningarfrelsi í landinu, leiða til fábreytni efnis og innihalds í fjölmiðlum og jafnvel setja afkomu hundruð manna í uppnám. Virtir lögfræðingar hefðu og lýst þeirri skoðun að það bryti hugsanlega gegn stjórnarskránni.

„Frumvarpið er óþarft, það þjónar ekki fjölbreytni fjölmiðla, heldur geðþótta stjórnmálamanna sem þola ekki gagnrýni,“ sagði Össur. Gagnrýndi hann það sem hann kallaði offors við að koma frumvarpinu, sem hann sagði kveða á um grundvallar breytingar, inn á þing. Ekkert kallaði á tafarlausar aðgerðir varðandi eignarhald fjölmiðla.

Þá sagði Össur, að ríkisstjórnin hefði í umræðunni lagt mikla áherslu á Evrópuráðið. Nýlega hefði ríkisstjórn Lúxemborgar lagt fram frumvarp um breytta skipan fjölmiðla. Yfirlýst markmið þeirrar ríkisstjórnar hefði verið að umræða og umfjöllun um það frumvarp yrði vönduð og fagleg. Þess vegna hefði frumvarpið verið sent til umfjöllunar og umsagnar Evrópuráðsins áður en það var afgreitt endanlega. Þetta hefði talsmaður Evrópuráðsins lýst sem mjög eftirsóknarverðum og faglegum vinnubrögðum. Lagði Össur til að ríkisstjórn Íslands færi að fordæmi Lúxemborgar og sendi sitt frumvarp, um breytingar á starfsemi fjölmiðla til umsóknar Evrópuráðsins. Það myndi fela í sér vönduð og fagleg vinnubrögð.

Páll Magnússon, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að vegna ítrekaðra yfirlýsinga einstakra þingmanna Samfylkingarinnar á undanförnum misserum um nauðsyn þess að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum skuldaði Össur þinginu skýringu á því hvers vegna hann væri andvígur því að færð yrðu í lög ákvæði um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert