Brotið á karli við ráðningu hjá Reykjavíkurborg

Kærunefnd jafnréttismála álítur að leiddar hafi verið líkur að mismunun vegna kynferðis þegar kona var ráðin í starf á tölvudeild hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur fyrir ári. Karl kærði ráðninguna en 19 sóttu um starfið; 16 karlar og þrjár konur. Kærunefndin telur að ekki hafi verið sýnt fram á að málefnaleg rök hafi staðið til þess að líta fram hjá manninum sem kærði við ráðninguna og er það því álit kærunefndarinnar að Fræðslumiðstöð hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Karlinn hafi staðið konunni framar bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu og bendir nefndin á að þess skuli gæta að umsækjandi sé ekki valinn nánast einvörðungu á grundvelli kynferðis.

Ekki leitað til meðmælenda í kjölfar atvinnuviðtals

Kærandi taldi að gengið hefði verið framhjá sér við ráðningu í starfið þegar litið væri til starfsreynslu og menntunar. Telur hann hafa verið ráðið í stöðuna í kjölfar fimmtán mínútna starfsviðtals, en hann dregur í efa að hægt sé að leggja mat á hæfni fólks í mannlegum samskiptum í svo stuttu samtali. Þeir sem tóku viðtalið hafi ekki þekkt til hans persónulega en hafi þrátt fyrir það ekki leitað til meðmælenda hans.

Í sjónarmiðum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur er bent á að starfið hafi verið tímabundið og samkvæmt reglum sem gildi um auglýsingar lausra starfa hjá Reykjavíkurborg hafi ekki verið skylt að auglýsa það. Í auglýsingunni um starfið var lýst helstu áherslum sem lagðar hafi verið til grundvallar við mat á umsóknum. Sérstaklega hafi verið litið til menntunar, kyns og starfsreynslu. Hvað réði vali á umsækjanda kemur fram í greinargerð Fræðslumiðstöðvar að konur hafi verið hvattar til að sækja um starfið og hafi verið fyrir því tvær ástæður. Annars vegar að í jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar sé lögð áhersla á að jafna kynjamun en í tölvudeild kærða hafi starfað fjórir karlar en engin kona. Hin ástæðan sé að margar konur séu umsjónarmenn tölvukerfa í skólum og hafi þær margoft komið þeirri athugasemd á framfæri að æskilegt væri að kona starfaði í tölvudeildinni.

Ekki var efast um faglega hæfni mannsins heldur hafi starfsmenn tölvudeildar ekki treyst sér til að vinna með honum og hafi sú afstaða verið rökstudd með tilvitnunum í árekstra sem upp hafi komið í samskiptum þeirra á milli er hann var tölvuumsjónarmaður í einum grunnskóla borgarinnar. Í sjónarmiðum Fræðslumiðstöðvar er ekki tekin afstaða til starfsreynslu kæranda í samanburði við þá sem ráðin var.

Stóð framar hvað varðar menntun og starfsreynslu

Kærunefndin kemst að því í áliti sínu að kærandi hafi staðið þeirri sem starfið hlaut framar, bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu. Í máli Fræðslumiðstöðvarinnar hafi komið fram að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um að ráða kæranda ekki til starfa, þ.e. meintir samstarfsörðugleikar. Fræðslumiðstöð hafi þó ekki fært fram nein frekari rök eða gögn máli sínu til stuðnings um meinta samstarfsörðugleika eða árekstra við kæranda. Að mati nefndarinnar geta þessi sjónarmið því ekki ráðið úrslitum í málinu.

Kærunefnd segir liggja fyrir að Fræðslumiðstöð hafi talið sig hafa verið að stuðla að því markmiði að jafna kynjahlutfall með því að ráða konu í starfið. Í álitinu segir: "Þess verður þó ætíð að gæta í slíkri viðleitni að ganga ekki á svig við meginreglu laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þannig að umsækjandi sem stendur öðrum af gagnstæðu kyni að baki hvað menntun og starfsreynslu áhrærir sé þrátt fyrir það valinn nánast einvörðungu á grundvelli kynferðis, þar sem kyn þess umsækjanda sé í minnihluta í viðkomandi starfsstétt."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert