Gert ráð fyrir tveimur breytingum á fjölmiðlafrumvarpi

Umræða um fjölmiðlafrumvarpið stóð yfir á Alþingi alla síðustu viku. …
Umræða um fjölmiðlafrumvarpið stóð yfir á Alþingi alla síðustu viku. Nú er verið að vinna að breytingartillögum við frumvarpið fyrir þriðju umræðu.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði eftir þingflokksfund sjálfstæðismanna í dag, að fulltrúar stjórnarflokkanna í allsherjarnefnd Alþingis væru að vinna að breytingartillögum við fjölmiðlafrumvarpið sem snertu tvö atriði þess. Annars vegar tillögu um að óheimilt verði að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki á meira en 35% eignarhlut í því en þetta hlutfall er 25% í frumvarpinu nú. Hins vegar að núverandi útvarpsleyfum verði leyft að renna út, þó þannig að ekkert þeirra renni út fyrr en eftir tvö ár þegar lögin taka gildi.

Davíð sagðist vera sáttur við breytingarnar. Kvaðst „Það er enginn vafi á því að þessi meginbreyting varðandi það hvenær leyfi falla úr gildi, sem var skorin við tvö ár, er auðvitað mildandi aðgerð. En hvort það dugi skal ég ekki segja. Þetta var niðurstaðan sem þarna varð. Ég get ekki neitað því að Framsóknarflokkurinn var áhugasamur um breytingarnar.“

Aðspurður sagði Davíð að það væri sátt milli flokkanna. „Við höfum alltaf sagt að það yrði pústað milli annarrar og þriðju umræðu og púlsinn tekinn. Og nú gerum við þetta við þriðju umræðu.“ Þegar Davíð var spurður nánar út í stjórnarsamstarfið sagði hann: „Stjórnarsamstarfið er afskaplega gott. Ég hef það mjög á tilfinningunni að þetta mál hafi mjög þétt stjórnarsamstarfið. Ég tel að samstarfið milli okkar Halldórs Ásgrímssonar hafi aldrei verið sterkara heldur en einmitt núna.“

Ekki er ljóst hvenær þriðja umræða um fjölmiðlafrumvarpið hefst en hún verður væntanlega í þessari viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert