Íslenska friðargæslan stjórnar flugvellinum í Kabúl

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ásamt Hallgrími Sigurðssyni flugvallarstjóra (t.v.) og Arnóri …
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ásamt Hallgrími Sigurðssyni flugvallarstjóra (t.v.) og Arnóri Sigurjónssyni, yfirmanni Íslensku friðargæslunnar, við athöfnina. Morgunblaðið/Nína Björk Jónsdótti

Íslenska friðargæslan tók formlega við stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl í Afganistan í gær og munu alls fimmtán Íslendingar starfa á flugvellinum að jafnaði næstu tólf mánuðina. Hallgrímur N. Sigurðsson tók við stjórn flugvallarins fyrir hönd Íslendinga en stjórn flugvallarins er stærsta verkefni Íslensku friðargæslunnar til þessa.

Við athöfnina í Kabúl í gær voru afhent hjálpargögn sem íslensk hjálparsamtök hafa safnað undanfarnar vikur.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra var viðstaddur athöfnina á flugvellinum í gær.

"Þetta eru mikil tímamót hjá utanríkisþjónustu Íslands að taka að sér svona viðamikið verkefni," sagði Halldór við blaðamann Morgunblaðsins að lokinni athöfninni. "Við höfum aldrei gert neitt þessu líkt fyrr. Það er líka stór dagur að fá að taka þátt í því að afhenda þessi hjálpargögn sem koma áreiðanlega að miklum notum. Ég er viss um að þeir Íslendingar sem hér eru komnir eiga eftir að standa sig afar vel. Þeir eru þegar búnir að vinna heilmikið verk," sagði Halldór.

Merki stríðsins sjást víða

Hann sagði Íslendinga hafa þeim skyldum að gegna í alþjóðasamfélaginu að taka þátt í hjálparstarfi.

"Við erum rík þjóð, þótt við séum ekki fjölmenn höfum við skyldur eins og aðrir. Hér eru þjóðir alls staðar að úr heiminum og allar Norðurlandaþjóðirnar og það er að sjálfsögðu skylda Íslands að vera með í þessu uppbyggingarstarfi eins og annarra," sagði Halldór.

Hann sagði að þrátt fyrir að merki stríðsins sæjust víða við flugvöllinn, sem orðið hefur fyrir árásum, fyndist sér vera friður í loftinu.

Að lokinni athöfninni fundaði Halldór með Hamid Karzai, forseta Afganistans, í forsetahöllinni.

Kabúl. Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert