Ákvörðun forseta um að skrifa ekki undir lög um fjölmiðla hefur skapað upplausn í þjóðfélaginu, að mati Ástþórs Magnússonar forsetaframbjóðanda.
"Ólafur Ragnar hefur sett sig í ómögulega stöðu. Hann hefur setið sem forseti í átta ár og hefði átt að láta setja reglur um málsskotsrétt forseta en það hefur hann ekki gert. Ólafur er stjórnmálafræðingur og ætti að vita að hann má ekki nota málsskotsréttinn þannig að það skapist upplausn í þjóðfélaginu en nú er hætta á að það gerist, sem er mjög neikvætt fyrir þjóðina bæði innanlands og út á við," segir Ástþór.
Aðspurður hvað Ástþór hefði gert í þessu máli, segist hann ekki hafa komið sér í þessa stöðu. "Ég hefði sett á fót nefnd til að skapa reglur um málsskotsréttinn þannig að það væri ekki eins og happdrætti hvenær honum yrði beitt. Ég hefði ekki skapað tengsl við fyrirtæki eins og Ólafur hefur gert. Við megum ekki gleyma því að forsetaframboð Ólafs Ragnars 1996 var fjármagnað af Norðurljósum, umboðsmaður hans í forsetakosningunum 1996 og 2000 var forstjóri Norðurljósa og fyrir kosningarnar núna er umboðsmaður hans lögfræðingur Norðurljósa. Sú sem sá um undirskriftarsöfnun fyrir forsetaframboð Ólafs bæði nú og áður var starfsmaður Norðurljósa, þannig að hann er frambjóðandi Norðurljósa. Þó hann sé ekki lagalega vanhæfur til að koma að þessu máli þá er hann pólitískt gjörsamlega vanhæfur," segir Ástþór.
Hann segir eðlilegt að málsskotsrétturinn sé til staðar en að reglur um málsskotsréttinn verði að vera til staðar svo honum verði ekki beitt þannig að úr verði stríð í þjóðfélaginu.