Ekki fullnægjandi rök fyrir synjun

Baldur Ágústsson forsetaframbjóðandi segist ekki sjá fullnægjandi rök fyrir þeirri ákvörðun forsetans að hafna því að undirrita lög um fjölmiðla, sérstaklega þegar lögin eru skoðuð í samhengi við önnur umdeild lög.

"Eins og ég hef áður lýst yfir tel ég málskotsréttinn mikilvægan björgunarbát sem sjálfsagt er að forseti hafi í hendi sinni þegar mikið liggur við. Þegar fjölmiðlalögin eru skoðuð í samhengi við önnur mikilvæg lög sem forsetar lýðveldsisns í 60 ár hafa kosið að undirrita þrátt fyrir áskoranir og þrýsting frá hagsmunaaðilum og almenningi, mál á borð við öryrkjalögin, Schengen-samninginn, EES-samninginn og inngönguna í NATÓ, sem olli átökum á Austurvelli á sínum tíma, sé ég ekki fullnægjandi rök til að hafna undirritun þessara laga. Ég vona því að forsetinn hafi haft einhverjar upplýsingar sem ég hef ekki sem réttlæta þessa ákvörðun hans.

Allt þetta mál ber því sorglegt vitni hvernig fer þegar virkur stjórnmálamaður situr á Bessastöðum. Hættan er alltaf sú að hann með orðum sínum og athöfnum, áður en meðferð máls lýkur á Alþingi, valdi óróa og sundrungu, sem hann síðan dregst inn í og loks móta afstöðu hans þegar til staðfestingar kemur.

Þetta mál hefur blásist upp vegna þess að á Bessastöðum og Alþingi sitja tveir ólíkir pólar," segir Baldur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert