Þór Vilhjálmsson, fyrrum hæstaréttardómari og dómari við mannréttindadómstólinn, segir að synjun forsetans á staðfestingu laganna hafi verið óheimil.
"Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef sagt mörgum sinnum, að þessi synjun forsetans persónulega hafi verið óheimil," sagði Þór.
Hann sagði að fosetinn byggði synjunina á 26. grein stjórnarskrárinar en um þetta gilti líka 13. grein stjórnarskrárinnar sem að efni til væri sú að forsetinn léti ráðherra framkvæma vald sitt.
"Þarna er um að ræða valdbeitingu og hún getur ekki farið fram eftir þessari 13. grein nema eftir tillögu og með meðundirritun ráðherra."
Hann sagði aðspurður að forseti þyrfti atbeina ráðherra til þess að beita synjunarvaldinu.
Hann sagði að þar með kæmi málið til kasta dómstólanna og það myndi verða hans ráð ef einhver spyrði hann ráða af þeim sem ráða. Deilt hefði verið um þessi atriði og ýmsir haldið öðru fram, meðal annars því að forsetinn hefði ekki framkvæmdavaldið. Það verði að vera með atbeina ráðherra vegna 13. greinar, en þeir telji að vegna 2. greinar stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins, að þá gildi 13. greinin ekki um löggjafarvaldið. "Ég tel að engin merki séu um að þetta sé réttur skilningur. "