Heimsókn forseta Alþingis til Washington: Rætt um aukið samstarf þinganna

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, átti í gær ásamt forsetum þjóðþinga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna fund með Dennis Hastert, forseta fulltrúadeildar bandaríska þingsins. Að sögn Halldórs er tilgangur heimsóknarinnar að skapa grundvöll fyrir meira samstarf milli þessara landa á sviði þingsins en heimsóknin hefur staðið yfir undanfarna daga.

"Við teljum mjög mikilvægt að efla samskipti landanna beggja vegna Atlantshafsins á vettvangi þingsins. Bandaríkjamenn tóku undir það með okkur að það væri mjög gagnlegt ef það gæti tekist. Jafnframt var komið inn á ýmis málefni sem varða þessar þjóðir almennt og einnig var komið inn á samskipti þjóðanna við Bandaríkin. Auk þess var fjallað um öryggismál, stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni heimskautalandanna og stöðuna í Evrópu," sagði Halldór.

Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna var rætt stuttlega á blaðamannafundi sem haldinn var með þingforsetunum í gær. Á fundinum sagði Halldór að Ísland hefði átt langt og gott samstarf við Bandaríkin í varnarmálum og þrátt fyrir breytta tíma og minni umsvif Bandaríkjamanna á Íslandi, legðu Íslendingar mikið upp úr því að ná samkomulagi við Bandaríkjamenn á jafnréttisgrundvelli þar sem tekið væri tillit til öryggishagsmuna beggja aðila.

Heimsókn Halldórs lauk í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert