Þingvallanefnd, skipuð Birni Bjarnasyni, Guðna Ágústssyni og Össuri Skarphéðinssyni, kynnti og undirritaði í gær nýja stefnumörkun til ársins 2024 fyrir þjóðgarðinn á Þingvöllum með athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Viðstaddir voru fulltrúar þeirra fjölmörgu aðila sem tóku þátt í gerð stefnumörkunarinnar. Miðast hún við nýsamþykkt lög á Alþingi, sem kveða m.a. á um stækkun þjóðgarðsins, og tilnefningar Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO.
Umsókn Íslands verður tekin fyrir á fundi Nefndar um arfleið þjóðanna (World Heritage Committee) í Kína um næstu mánaðamót og að sögn Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra og formanns Þingvallanefndar, er vonast til að atkvæðagreiðsla nefndarinnar verði Íslandi í vil. Að því hafi stjórnvöld stefnt og stefnumörkunin eigi að getað stuðlað að þeirri niðurstöðu. Björn segir engar aðrar vísbendingar hafa fengist en að tilnefningin verði samþykkt í nefndinni. Fulltrúar Íslands muni verða viðstaddir fundinn í Kína.
Stefnumörkuninni fylgir verkefnaáætlun sem endurnýja á á fimm ára fresti. Gert er ráð fyrir að árangur af stjórnun þjóðgarðsins í samræmi við stefnumörkunina verði metinn samtímis endurnýjun verkefnaáætlanana. Í stefnuskjalinu, sem Þingvallanefnd undirritaði í gær, er m.a. getið um meginmarkmið næstu 20 ára til verndunar á náttúru, sögusviði og minjum í þjóðgarðinum. Meðal markmiðanna er að fjarlægja gróður úr þinghelginni sem ekki er upprunninn á Þingvöllum, m.a. barrtré og aspir. Þá á í samstarfi við Landsvirkjun að gera ráðstafanir til að vernda lífríkið í vatninu og opna urriðanum leið niður í Efra-Sogið, þar sem áður var náttúrulegt útfall Þingvallavatns. Ekki er gert ráð fyrir nýbyggingum innan þjóðgarðsins, bústaður forsætisráðherra verður ekki lengur í Þingvallabænum og ekki er heldur gert ráð fyrir áframhaldandi hefðbundnum rekstri Hótel Valhallar. Þar eiga að verða ráðstefnur og mannamót á vegum Alþingis og ríkisstjórnar, auk þess sem hýsa á þar sérstaka gesti.
Össur Skarphéðinsson lýsti yfir þakklæti og ánægju með stefnumörkunina. Tekist hefði að stækka þjóðgarðinn í góðri sátt Þingvallanefndar. Sem dæmi um gott verk nefndi Össur að tekist hefði að tryggja framtíð urriðans og bleikjunnar í Þingvallavatni, með því að opna gamla farveginn í Efra-Sogið. Þá hefði tekist að tryggja rannsóknum á svæðinu fastan grundvöll.
Guðni Ágústsson sagðist vilja óska Íslendingum til hamingju með Þingvelli og þau framtíðarskref sem hefðu verið stigin með stefnumörkuninni. Á Þingvöllum sameinuðust þingið, kirkjan og þjóðin og allir væru þar jafnir. Vildi Guðni ítreka og taka undir gamlan draum fyrrum þingforseta, Ólafs G. Einarssonar, um að byggja Þingvelli upp með þeim hætti að við Öxará gæti setning Alþingis farið fram, og eða þingslit.