DV braut siðareglur blaðamanna með nafnbirtingu

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að DV hafi brotið gegn 3. grein siðareglna félagsins. sem segir að sýna beri fyllstu tillitssemi í vandasömum málum, með því að birta nafn og mynd af lækni, á Kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í umfjöllun um nýfætt barn sem lést í kjölfar legvatnsástungu. Er brotið alvarlegt að mati siðanefndarinnar.

Viðtal birtist við föður barnsins í mars sl. og nafngreinir faðirinn þar lækni deildarinnar og sakar hann um að hafa brugðist og að vegna aðgerðarleysis læknisins í kjölfar legvatnsástungunnar hafi barnið látist. Foreldrarnir kærðu starfsfólk spítalans til landlæknis og síðar lögreglunnar. Fram kemur að foreldrarnir hyggist að lokinni lögreglurannsókn höfða einkamál á hendur lækninum með kröfu um að honum verði vikið úr starfi. Fram kemur að ítrekað hafi verið reynt að ná í umræddan lækni af hálfu blaðsins en hann ekki svarað skilaboðum.

Yfirlæknar á Kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss kærðu umfjöllun DV um málið og sögðu að einn læknir Kvennadeildarinnar hafi verið úthrópaður fyrir mistök í starfi þótt engar sönnur hafi verið færðar á að svo hafi verið.

Í niðurstöðu siðanefndar BÍ segir, að eðlilegt megi teljast að fjallað sé um mál sem þetta í fjölmiðlum. Það sé fréttnæmt en um leið sé umfjöllunin viðkvæm og því vandasöm. Missögn í fréttinni hafi verið leiðrétt og telji siðanefnd að DV hafi ekki verið skylt að birta athugasemd sjúkrahússins í heild.

„Eftir stendur nafn- og myndbirting. Á fundi með siðanefnd sögðu ritstjórar DV það stefnu blaðsins að birta nöfn þeirra sem um sé fjallað í fréttum nema í undantekningartilvikum, t.d. ef fórnarlamb á hlut að máli eða ef birtingin gæti vísað á fórnarlambið. Í því felist engin ásökun af hálfu blaðsins.

Siðanefnd telur að það hefði ekki rýrt gildi fréttarinnar þótt nafn læknisins og mynd af honum hefðu ekki verið birt og því hafi það verið óþarft. Sjónarmið föðurins um alvarlegt atvik koma engu að síður skýrt fram en með því að sleppa nafn- og myndbirtingu hefði verið sýnd nauðsynleg tillitssemi þegar haft er í huga að málið er í rannsókn og engin niðurstaða fengin. Í kærunni kemur fram að andlát barnsins hafi verið óhappatilvik enda legvatnsástunga alltaf áhættusöm aðgerð. Siðanefnd telur ekki hafa verið ástæðu til að vara við umræddum lækni.

Með því að birta nafn læknisins og mynd af honum telur siðanefnd DV hafa brotið ákvæði 3. greinar siðareglna Blaðamannafélags Íslands þar sem segir að sýna beri fyllstu tillitssemi í vandasömum málum," segir í úrskurði siðanefndar. Úrskurður siðanefndar BÍ í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert