Ágreiningur um áherslur á málþingi um framtíð Reykjavíkurlistans, sem halda átti á morgun, á tíu ára afmæli R-listans, varð til þess að þinginu var frestað til haustins. Tímaskortur er sagður hafa orðið þess valdandi að ekki tókst að ná lendingu í málinu nógu tímanlega.
Dansleikur verður á Hótel Borg annað kvöld klukkan 22 þar sem borgarstjóri og borgarfulltrúar R-listans taka á móti gestum. Átti dagurinn því að vera tvískiptur; fyrst málþing um fortíð, nútíð og framtíð Reykjavíkurlistans og síðan dansleikur um kvöldið. Átti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, að tala um fortíðina og Þórólfur Árnason, núverandi borgarstjóri, framtíðina. Ekki var full sátt um þá uppröðun. Önnur hugmynd var að formenn stjórnmálaflokkanna ræddu sína sýn á samstarfið, borgarfulltrúar sætu í pallborði og svöruðu gagnrýnum spurningum og börn jafngömul R-listanum flyttu stutt erindi. Um þetta var ágreiningur.
Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi segir að undirbúningstími hafi verið of knappur. Einnig hafi Framsóknarflokkurinn verið með miðstjórnarfund og óvissa hefði verið um hvort hann drægist fram á daginn í dag. Það hafi ekki ráðið neinum úrslitum um frestun málþingsins að ekki náðist samkomulag um dagskrá.