Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi hefur skorað á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að mæta sér í Kastljósi Sjónvarpsins til að ræða þá ákvörðun forsetans að staðfesta ekki fjölmiðlalögin. Í áskorun Ástþórs segir, að hann telji að umrædd ákvörðun geti stórskaðað embætti forseta Íslands og grafið undan málskotsréttinum til frambúðar.
Ástþór segir í áskoruninni, að málið snerti mjög forsetaframboð og embætti forseta Íslands til frambúðar. Óeðlilegt sé að forsetinn kasti slíkum stríðshanska inn í þjóðfélagið í miðri kosningabaráttu, þremur vikum fyrir kosningar, nema vera tilbúinn að mæta öðrum frambjóðendum fyrir opnum tjöldum til að útskýra og ræða þessa ákvörðun sína.
„Ég skora á þig að mæta mér í Kastljósi Sjónvarpsins nú í þessari viku áður en þeir fara í sumarfrí. Ég vonast til að þú takir þessari áskorun svo hægt sé að upplýsa kjósendur hvað er í gangi á Bessastöðum," segir Ástþór síðan í áskoruninni.