Stöðvaður eftir mikla eftirför á allt að 200 km hraða

Lögreglubílar frá þremur embættum komu við sögu er maður á fimmtugsaldri var stöðvaður eftir tugi kílómetra eftirför á allt að 200 km hraða úr Mjódd í Reykjavík og út eftir Reykjanesi, en hann varð loks stöðvaður er lögreglubíl var ekið utan í bifreið hans norður af Strandarheiði.

Ökumaðurinn sem er 44 ára situr nú í fangaklefa í Kópavogi og bíður þess að verða yfirheyrður. Hann var ekki undir áhrifum áfengis, að sögn lögreglu.

Að sögn varðstjóra hjá Kópavogslögreglu ók maðurinn á miklum hraða suður Reykjanesbrautina í Mjódd er vart varð ferða hans fjórðungi fyrir klukkan 5 í morgun. Sinnti hann engum stöðvunarmerkjum og heldur ekki eftir að hafin var eftirför suður Reykjanesbrautina.

Áætlar lögreglan að þegar mest var hafi maðurinn ekið á um eða yfir 200 km hraða. Linnti hann ekki látum þótt hlutir týndust úr bílnum á leiðinni, svo sem hjólbarðar en hann ók langa vegalengd á berum felgum eftir að einn eða fleiri hjólbarðar tættust af.

Segir lögreglan að maðurinn hafi greinilega ekki ætlað að láta ná sér því hann gaf ætíð í er lögreglubílar tóku að nálgast. Fyrir vikið var gripið til þess ráðs að reyna stöðva för hans með því að aka lögreglubifreið utan í hann. Tókst loks norður af Strandarheiði utanvert á Reykjanesi að stöðva ferð hans með þeim hætti en á endanum hafnaði bifreið mannsins utan vegar.

Á leiðinni fór maðurinn fram úr fjölda bíla og lagði hann bæði vegfarendur og lögreglu í stórhættu, að sögn varðstjóra hjá Kópavogslögreglunni. Er hann ók fram úr rútu fullri af fólki flaug af bíl hans járnhringur sem lenti í hópferðabifreiðinni. „Það var mikil almannahætta á ferðum,“ sagði fulltrúi lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert