Kristján Eldjárn kappkostaði að halda sig til hlés í stjórnmálabaráttunni

Kristján Eldjárn, forseti Íslands, á árunum 1968 til 1980, kappkostaði ávallt að halda sig til hlés í stjórnmálabaráttunni, segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur. "Kristján leit ekki á það sem sitt hlutverk að taka virkan þátt í stjórnmálum. Það þýðir samt ekki að hann hafi ekki gegnt neinu pólitísku hlutverki. Langt í frá. Þegar hann var forseti voru miklir átakatímar í stjórnmálum; stjórnarskipti voru tíð og pólitískt hlutverk forsetans var mest við stjórnarmyndanir."

Guðni var meðal framsögumanna á fundi Sagnfræðingafélags Íslands og Félags stjórnmálafræðinga, á miðvikudag, um pólitískt hlutverk forseta Íslands frá stofnun lýðveldisins til okkar daga. Guðni byggði erindi sitt á rannsóknum sínum á dagbókum og minnispunktum Kristjáns Eldjárns. Er Guðni að skrifa bók um það efni og er hennar að vænta fyrir árslok.

"Í þessum heimildum sést glöggt hvað mikið mæddi á Kristjáni við stjórnarmyndunarviðræður og hvað hann lagði mikla áherslu á að hann yrði aldrei sakaður um íhlutun," útskýrir Guðni í samtali við Morgunblaðið. "Hann vildi alltaf gera öllum jafnhátt undir höfði. Hans meginmarkmið voru að vera ekki sakaður um að grípa inn í og mismuna stjórnmálaflokkunum. Þetta tókst honum mjög vel að mínu mati."

Guðni benti í erindi sínu á að Kristján hefði þó í tíð sinni þurft að taka umdeildar ákvarðanir. Til dæmis við þingrofið 1974 og þegar hann tók þá ákvörðun að veita Lúðvík Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, stjórnarmyndunarumboð sumarið 1978. "Fyrir utan þessi tvö stærstu atvik og kannski einhver önnur minni voru starfsaðferðir Kristjáns ekki umdeildar. Ég kemst að þeirri niðurstöðu að í bæði þessi skipti, þar sem hann var gagnrýndur, hafi hann komist að réttri niðurstöðu." Guðni telur m.ö.o. að Kristján hafi valið í þessum tilvikum þann kost "sem var réttastur miðað við ábyrgð hans, hefð og sanngirni."

Tóku virkan þátt í stjórnmálum

Guðni segir að forverar Kristjáns, þeir Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson, á fyrri hluta síns valdaskeiðs, hafi hlutast miklu meira um stjórnmál. "Þeir tóku t.d. virkan þátt í stjórnarmyndunum og reyndu að fá fram þá niðurstöðu sem þeir helst kusu. Kristjáni kom slíkt aldrei til hugar. Hann vildi láta stjórnmálaforingjunum það eftir að koma saman ríkisstórnum. Kristján taldi að það væri sitt hlutverk að stýra stjórnarmyndunum en alls ekki að vinna að því að einn flokkur væri í stjórn frekar en annar. Það var fjarri hans skoðunum."

Guðni tekur fram að Ásgeir hafi haldið sig til hlés síðari hluta síns valdaskeiðs, en þá var Viðreisnarstjórnin við völd. "Það reyndi því aldrei á forsetann við stjórnarmyndanir á þeim tíma. Viðreisnarstjórnin hélt bara áfram eftir kosningar."

Guðni segir að Kristján hafi verið "ópólitíski valkosturinn" eins og hann orðar það í forsetakosningunum 1968, en þá var einnig í framboði Gunnar Thoroddsen, sem lengi hafði verið frammámaður í Sjálfstæðisflokknum. Það hafi m.a. ráðið vali kjósenda að Kristján var ópólitískur. Í aðdraganda forsetakosninganna hafi Kristján verið kynntur sem frambjóðandi sem hefði ekki pólitíska fortíð. Að vísu hefði verið vitað að hann aðhylltist frekar skoðanir til vinstri en þó var lögð áhersla á að hann myndi ekki láta pólitískar skoðanir ráða för. "Þegar Ragnar í Smára var að hvetja Pétur Benediktsson, bróður Bjarna Benediktssonar, til að styðja Kristján spurði Pétur vegna vinstri skoðana Kristjáns: "Hvaða afstöðu tekur hann ef það er stjórnarkreppa?" Þá svaraði Ragnar að bragði: "Kristján Eldjárn mun aldrei láta pólítík ráða ákvörðun sinni." Guðni segir að þetta hafi riðið baggamuninn hjá mörgum í kosningabaráttunni 1968, þ.e. "að Kristján yrði ópólitískur í pólitísku embætti".

Tók réttar ákvarðanir

Guðni fjallaði í erindi sínu nánar um þær umdeildu pólitísku ákvarðanir sem Kristján þurfti að taka í forsetatíð sinni. Hann greindi m.a. frá þingrofinu og rifjaði upp, í því sambandi, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna hefðu myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi eftir kosningarnar 1971 undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins. Samstarfið hafi hins vegar gengið illa og í byrjun maí 1974 voru þrír þingmenn Samtaka frjálslyndra og vinstri manna hættir að styðja stjórnina. Þar með hafði stjórnin ekki lengur meirihluta á þingi. Hin pólitísku átök, sagði Guðni, tóku að harðna og að kvöldi 7. maí var ljóst að lögð yrði fram vantrauststillaga á stjórnina.

Guðni sagði að Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra hefði þá látið í það skína að hann myndi rjúfa þing áður en vantrauststillaga yrði tekin á dagskrá. Úrslitastundin hefði runnið upp 8. maí. "Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþýðuflokksins, hringdi í Kristján og sagði að hann sjálfur, Geir Hallgrímsson og Hannibal Valdimarsson vildu mótmæla því að þing væri rofið áður en þeim væri gert kleift að kanna hvort þeir gætu myndað stjórn," segir í erindi Guðna. "Kristján kvaðst mundu athuga þetta en svo kom Ólafur Jóhannesson á hans fund og óskaði eftir umboði til þess að rjúfa Alþingi."

Guðni sagði að þarna hefði lokaákvörðunin um það hvernig endalok ríkisstjórnarinnar bæri að verið í höndum Kristjáns Eldjárns. Skýrði Guðni frá því að Kristján hefði hugsað sinn gang um stund og undirritað svo þingrofsbeiðnina. Guðni vitnaði síðan í dagbókarskrif Kristjáns frá þessum tíma en þar segir: "Ég get ekki enn séð hvaða tilgangi það hefði átt að þjóna að láta það eftir að þessir menn [Geir, Gylfi og Hannibal] færu að reyna stjórnarmyndun, en glöggt sé ég hvaða voðaafleiðingar það hefði fyrir mig og stöðu forseta, ef ég hefði farið að ráðum þeirra. Ég held að blátt áfram sé ekki hægt að blanda forsetaembættinu svona inn í stjórnmálaátök."

Réttar ákvarðanir

Guðni sagði að enginn vafi léki á því að Kristján Eldjárn hefði þarna gert rétt. Í fyrsta lagi vegna þess að þremenningarnir, Geir, Gylfi og Hannibal, hafi aldrei haft tilbúna stjórn eða stjórnarsáttmála. Kröfur þeirra hafi verið of veikar og áætlanir of óljósar. Í öðru lagi hafi stjórnskipun Íslands einfaldlega ekki leyft að forsetinn tæki í taumana með þeim hætti sem sumir stjórnarandstæðingar hefðu gert sér vonir um. Guðni tók þó fram að þetta atriði væri umdeilanlegt. Eftir stæði þó, sagði hann, að þótt þingrof Ólafs Jóhannessonar hefði verið löglegt hefði það líklega verið siðlaust. Sá réttur forsætisráðherra að geta sent Alþingi heim í trássi við þess eigin meirihluta væri óeðlilegur, byggður á úreltu ákvæði stjórnarskrárinnar og á skjön við þá meginreglu þingræðisins að framkvæmdavaldið lúti vilja þingsins. "Sú breyting var enda gerð á stjórnarskánni árið 1991 að við þingrof fellur umboð þingmanna ekki niður fyrr en á kjördegi, ólíkt því sem var 1974. Þá varð landið þingmannslaust um leið og Ólafur rauf þing," útskýrir Guðni.

Guðni vék síðan að úrslitum þingkosninganna árið 1978. Þar hefðu A-flokkarnir tveir, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, unnið stórsigur; fengið 14 þingmenn hvor. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 20 þingmenn og Framsóknarflokkurinn tólf.

Guðni sagði að stjórnarmyndunarviðræðurnar hefðu orðið flóknar og snúnar. Greindi hann síðan frá því þegar Lúðvík Jósepsson, formaður Alþýðubandalagsins, fékk umboð til að mynda stjórn. Áður hefði Benedikt Gröndal, formaður Alþýðuflokksins, fengið umboð og síðan Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Lúðvík fengi næsta tækifæri

Guðni sagði að Kristján hefði vitað að margir sjálfstæðismenn væru á móti því að Lúðvík fengi stjórnarmyndunarumboð. "En hvað annað var hægt að gera?" spurði Guðni í erindi sínu. Hann sagði að Baldur Möller, einn nánasti ráðgjafi Kristjáns, hefði sagt að Lúðvík yrði að fá umboðið. Kristján hefði verið sama sinnis og skrifað í dagbók sína: "Baldur er á því að ekki geti komið til mála annað en að veita Lúðvík næsta tækifæri. Allt sem hann sagði um þetta kom alveg heim við mínar hugsanir: Jafnvel þótt forseti vildi ganga framhjá honum, væri það fjarri öllum leikreglum í lýðræðisríki að sniðganga svo gróflega næststærsta stjórnmálaflokk landsins." Guðni sagði að þetta hefði verið rétt hjá Kristjáni og að Geir Hallgrímsson hefði reyndar sjálfur vakið máls á því við Krisján að vel gæti komið til greina að fela Lúðvík að reyna að mynda stjórn. Morgunblaðið hefði þó fundið mjög að ákvörðun Kristjáns og honum hefði fundist það ómaklegt.

Guðni sagði að eftir á að hyggja væri ekki hægt að sjá annað en að Kristján hefði þarna sem fyrr gætt allrar sanngirni. Það hefði verið ólýðræðislegt, nánast óhugsandi að sniðganga Alþýðubandalagið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert