Íslendingar eru fimmta mesta bjórdrykkjuþjóð heims þegar miðað er við höfðatölu, að því er segir í dag í skoska blaðinu Daily Record. Edda Hermannsdóttir hjá Hagstofunni segir hins vegar neyslutölur skoska blaðsins kolrangar.
Miðað við bjórdrykkju á hvern íbúa lítur listinn yfir 10 mestu bjórdrykkjulönd heims út sem hér segir:
Röð | Land | Lítrar á mann á ári |
1. | Tékkland | 163 |
2. | Þýskaland | 138 |
3. | Danmörk | 126 |
4. | Austurríki | 118 |
5. | Ísland | 112 |
6. | Belgía | 108 |
7. | Bretland | 104 |
8. | Lúxemborg | 100 |
9. | Ástralía | 96 |
10. | Bandaríkin | 86 |
Edda Hermannsdóttir á Hagstofunni segir frétt skoska blaðsins ranga hvað varðar bjórdrykkju Íslendinga. Hún sér m.a. um útreikninga áfengisneyslu sem birtir eru í Hagtíðindum. „Það er fjarri sanni að hér sé neyslan 112 lítrar á mann. Í fyrra nam neyslan 51,8 lítrum á mann og 50,7 lítrum árið 2002. Sé litið á bjórdrykkju Íslendinga 15 ára og eldri, sem haft er til viðmiðunar á alþjóðavísu, nam hún 67 lítrum,“ segir Edda.