Halldór Blöndal, forseti Alþingis, segir ekkert því til fyrirstöðu að halda þingið, sem saman kemur 5. júlí nk., í þingsal alþingishússins, en þar standa nú yfir ýmsar framkvæmdir vegna endurbóta á húsinu. Framkvæmdirnar hófust í byrjun mánaðarins og hefur af þeim sökum öllum stólum og borðum verið rutt úr þingsalnum.
Halldór segir að stólum og borðum verði aftur komið í þingsalinn fyrir þingið í sumar en rafræna kosningakerfið verði þó ekki tilbúið. "Ég geri ráð fyrir því að við látum okkur duga handauppréttingu í staðinn fyrir þessar rafrænu kosningar sem við höfum haft í venjulegri atkvæðagreiðslu," útskýrir hann og bætir við: "Maður vandist því í gamla daga."
Þingflokksherbergin verða ekki tilbúin fyrir þinghald í júlí og verða því þingflokkar, að sögn Halldórs, að halda fundi sína annars staðar.