Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setti af stað fyrstu sprenginguna í Almannaskarðsgöngum kl. 14 í dag að viðstöddu fjölmenni. Það er norska verktakafyrirtækið Leonhard Nielsen og Sønner sem sér um borun ganganna en aðalverktaki er Héraðsverk hf.
Göngin verða boruð sunnan megin frá og á meðan verða byggður vegskáli að norðanverðu. Þegar bormenn verða komnir í gegn færir vegskálaflokkurinn sig og byrjar á skála að sunnanverðu.
Um leið verða göngin fóðruð og vatnsvarin og byrjað á vegagerð og lagnavinnu í göngunum. Efnið sem kemur úr göngunum verður nýtt í fyllingar undir veginn að sunnanverðu.
Jarðgöngin verða 1.146 m löng, steinsteyptir vegskálar 162 m og vegagerð um 4,1 km.