Sjálfstæðismenn gagnrýna breytingar á þjónustu borgarinnar

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur segja að með breytingum á þjónustu borgarinnar, sem séu á skýrra markmiða, sé verið að splundra þeim þætti í þjónustu og stjórnsýslu borgarinnar, sem hingað til hefur verið framkvæmdur með ágætum hætti. Núverandi þjónusta langflestra stofnana borgarinnar, eins og hún er í dag uppbyggð, getur tryggt borgurunum góða þjónustu.

„Þeir starfsþættir, sem flytja á frá Félagsþjónustunni og ÍTR verða í meginatriðum áfram á núverandi stað í viðkomandi hverfum og því ranghermi að segja að verið sé að stofna „þjónustumiðstöðvar“.

Þessi tillaga gengur þvert á þau markmið að einfalda stjórnkerfi borgarinnar og gera það skilvirkara. Áhrif, yfirsýn og tengsl kjörinna borgarfulltrúa og fulltrúa í nefndum og ráðum borgarinnar við borgarbúa mun minnka.

Engar upplýsingar liggja fyrir um að hið nýja kerfi hafi í för með sér meiri skilvirkni, hagræðingu eða aukna og betri þjónustu fyrir borgarbúa eins og haldið er fram. Verið er að auka umfang stjórnsýslunnar og ljóst er að kostnaður vegna hennar mun aukast verulega.

Sú tillaga sem hér er lögð fram er í engu samræmi við þá tillögu sem meirihlutinn í stjórnkerfisnefnd lagði fram og samþykkti á fundi sínum 26. maí s.l. Sú tillaga sem stjórnkerfisnefnd samþykkti hefur ekki verið kynnt fagnefndum og hverfisráðum. Það virðist því augljóst að formaður stjórnkerfisnefndar hafi ekki haft umboð meirihluta R-listans til að vinna að þeirri tillögu sem stjórnkerfisnefnd samþykkti. Tillögunni var því í raun vísað til borgarstjórnarflokks R-listans.

Það hlýtur að vekja upp spurningar um það hvað gerðist innan R-listans síðan tillaga meirihluta stjórnkerfisnefndar var samþykkt og önnur tillaga, sem hvorki stjórnkerfisnefnd eða borgarráð hafa séð, fór í kynningu til ákveðinna embættismanna og starfsmanna nokkurra borgarstofnana. Mikil óeining hefur verið innan R-listans um málið. Eftir harðar deilur innan borgarstjórnarflokks R-listans kom Anna Kristinsdóttir, borgarfulltrúi R-listans og formaður ÍTR í veg fyrir að þjónustukerfi ÍTR yrði splundrað með sama hætti og nú er verið að gera með þjónustukerfi Félagsþjónustunnar.

Lokatillaga stjórnkerfisnefndar hefur ekki verið kynnt fyrir nefndum og ráðum borgarinnar og lítið sem ekkert samráð hefur verið haft við starfsmenn þeirra stofnana sem hlut eiga að máli en mörg hundruð þeirra eiga að flytjast yfir til þjónustumiðstöðvanna, m.a. um 460 starfsmenn Félagsþjónustunnar í Reykjavík. S.l. sunnudag var beiðni Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur, fulltrúa sjálfstæðismanna í félagsmálaráði um sérstakan fund í ráðinu mánudaginn 21. júní til að fjalla um þetta mál hafnað.

Það vekur furðu og er afar gagnrýnisvert að borgarstjóri ásamt nokkrum öðrum aðilum skuli nú á síðustu dögum hafa átt fjölda funda hjá nokkrum stofnunum borgarinnar og kynnt þar þessar nýju tillögur sem orðinn hlut áður en þær eru lagðar fyrir borgarráð og ræddar þar. Í framhaldinu kýs formaður stjórnkerfisnefndar að láta birta við sig viðtal í Morgunblaðinu 20. júní s.l. þar sem hann útlistar með ítarlegum hætti tillögur um stórkostlegar breytingar í borgarkerfinu, sem ekki hefur verið fjallað um í viðkomandi fagnefndum sem í hlut eiga og borgarráði. Kynning á þessum málum í fjölmiðlum áður en málið er tekið fyrir í borgarráði og áður en starfsmenn og viðkomandi aðilar sem hlut eiga að máli hafa fengið um það vitneskju er hrein og klár óvirðing við borgarráð og með öllu óviðeigandi,“ segir í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert