Nær 10.000 lén á rótarléninu .is hafa verið yfirfarin af Samkeppnisstofnun í samræmi við nýleg lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu þar sem kveðið er á um eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Í fréttatilkynningu segir að verulega skorti á að þeir sem láta í té rafræna þjónustu uppfylli lögákveðna upplýsingaskyldu sína.
Í tilkynningunni segir ennfremur að eitt af markmiðum laganna er að tryggja sömu neytendavernd í rafrænum viðskiptum og er í hefðbundnum viðskiptum. Þetta er m.a. gert með því að skylda þann sem veitir þjónustu á Netinu til að gefa tilteknar staðlaðar lágmarksupplýsingar um sig.
Stofnunin sendir nú alls um 2.500 fyrirtækjum, félögum og einstaklingum orðsendingu þar sem vakin er athygli á að upplýsingar á vefsvæðum þeirra eru ekki í samræmi við lög og þeim jafnframt bent á að koma upplýsingagjöf sinni í rétt horf.
Könnun samkeppnisstofnunar leiddi einnig í ljós að upplýsingagjöf þeirra sem selja vöru og þjónustu til neytenda á Netinu er verulega ábótavant samkvæmt lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga sem Samkeppnisstofnun hefur einnig eftirlit með.
14 daga skilafrestur
„Rétt þykir að vekja athygli á að samningar sem gerðir eru við neytendur um sölu á vöru og/eða þjónustu á Internetinu og uppfylla ekki ákvæði húsgöngu- og fjarsölulaganna eru ekki skuldbindandi fyrir neytendur. Þá skal einnig bent á að neytendur hafa í 14 daga heimild til þess að falla frá kaupum án þess að tilgreina nokkra ástæðu eða greiða viðurlög þegar kaup fara fram á Netinu, eða í annarri fjarsölu svo sem símasölu.
Samkeppnisstofnun vekur athygli á að lögin um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu eru víðfeðm og taka ekki einungis til fyrirtækja heldur einnig einstaklinga sem birta auglýsingar á heimasíðum sínum, íþróttafélaga og félagasamtaka sem þiggja styrki í formi auglýsinga á Netinu og sölu líknarfélaga á minningarkortum svo nokkur dæmi séu nefnd,“ segir í fréttatilkynningunni.