Sveinbjörn Kristjánsson, fyrrverandi aðalgjaldkeri Landssíma Íslands, var dæmdur í 4½ árs fangelsi fyrir rúmlega 261 milljóna króna fjárdrátt í starfi. Árni Þór Vigfússon og Kristján Ragnar Kristjánsson hlutu 2ja ára fangelsi hvor fyrir hylmingu, móttöku og ráðstöfun fjármuna frá Sveinbirni til einkanota. Fjórði sakborningurinn hlaut 8 mánaða fangelsi en sá fimmti var sýknaður. Skaðabótakröfu Landssímans var vísað frá dómi.
Dómur gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 14. Sveinbjörn var sem aðalféhirðir Símans á tímabilinu frá 4. maí 1999 til 31. desember 2002, og eftir það sem aðalgjaldkeri til 20. maí 2003, ákærður fyrir að hafa dregið sér frá félaginu samtals 261,1 milljón króna.
Síminn gerði kröfu um að Sveinbjörn, Árni Þór, Kristján og hinir sakborningarnir tveir yrðu hver í sínu lagi eða saman dæmdir til að borga alls rúmlega 246 milljónir króna í bætur. Var skaðabótakröfu Símans hins vegar hafnað.
Sveinbjörn viðurkenndi stærstan hluta þess fjárdráttar sem hann var ákærður fyrir en Árni Þór og og Kristján Ragnar neituðu alfarið sök og gerðu kröfu um að verða sýknaðir í málinu.
Sveinbjörn var dæmdur til að borga 450.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns. Árni Þór til að greiða 700.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og að auki 700.000 króna útlagðan kostnað vegna réttagæsluþóknunar. Kristján Ragnar var dæmdur til að borga 1,5 milljóna króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.
Fjórða sakborningnum var gert að borga 400.000 króna málsvarnarlaun verjanda síns, en 330.000 króna málsvarnarlaun verjanda fimmta sakborningsins, sem var sýknaður greiðist úr ríkissjóði.