Árni Þór Sigurðsson var endurkjörinn forseti borgarstjórnar við upphaf borgarstjórnarfundar í gær með samhljóða atkvæðum allra borgarfulltrúa, en eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta skipti sem allir borgarfulltrúar greiða fulltrúa meirihlutans atkvæði sitt.
"Ég lít þannig á að þetta sé góður stuðningur við þau störf sem ég hef unnið að undanfarin tvö ár sem forseti og þær breytingar sem ég hef beitt mér fyrir á starfsháttum í borgarstjórn og aðstöðumálum borgarfulltrúa," sagði Árni Þór að fundi loknum.
Hefð hefur verið fyrir því að minnihluti sitji hjá við kosningu forseta borgarstjórnar, en sjálfstæðismenn og fulltrúi Frjálslynda flokksins í borgarstjórn rufu þá hefð að eigin sögn vegna ánægju með hvernig Árni Þór hefur sinnt starfi forseta, og því hvernig hann hefur beitt sér fyrir breytingum á starfsháttum borgarstjórnar.