Davíð Oddsson: Hyldýpisgjá milli forseta og þjóðar

"Ég óska Ólafi Ragnari til hamingju með kjörið," segir Davíð Oddsson forsætisráðherra um úrslit forsetakosninganna á laugardaginn. Davíð segir niðurstöður kosninganna athyglisverðar og að mati hans hefur myndast hyldýpisgjá á milli forsetans og þjóðarinnar.

Kosningaþátttaka hrynur

"Því er ekki að neita að þessar tölur eru mjög athyglisverðar. Einu sambærilegu tölurnar sem við eigum eru kosningarnar 1988 þegar frú Vigdís Finnbogadóttir, sem hafði setið í forsetaembætti í átta ár eins og Ólafur Ragnar hefur gert, fékk framboð af sama toga á móti sér og Ólafur fékk núna," segir Davíð. "Þá fékk hún rúm 94% atkvæða og var með nálægt 70% atkvæðisbærra manna á bak við sig. Þá var kosningaþátttakan 73% en hrynur núna niður í 62%, sem er það allra minnsta sem menn hafa séð. Fyrir aðeins ári kusu 88% í alþingiskosningunum. Ólafur Ragnar er með rétt rúm 40% atkvæðisbærra manna á bak við sig á meðan frú Vigdís var með rétt tæp 70% atkvæðisbærra manna á bak við sig við alveg sömu aðstæður," segir Davíð.

Fólk tók upp hjá sjálfu sér að mæta á kjörstað og skila auðu

"Síðan gerist það að auðir seðlar eru 21% án þess að nokkur hreyfing sé í gangi, án þess að nokkur skrifstofa sé að skipuleggja eða nokkur sé með hvatningu í þá áttina. Fólkið tekur þetta upp hjá sjálfu sér og mætir á kjörstað eingöngu til þess að skila auðu. Þetta hefur aldrei sést áður, auk þess sem aðrir frambjóðendur fá meira samanlagt fylgi en menn áttu von á að þeir myndu fá. Þetta segir manni að fólk vill hafa forseta sem er forseti þjóðarinnar allrar, eins og 70% tala frú Vigdísar sýndi. Þetta sýnir jafnframt að atlaga Ólafs Ragnars að þinginu hefur orðið til þess að hann fær aðeins 40% atkvæðisbærra manna nú. Þessi gríðarlegi munur segir alla söguna," segir Davíð. "Þetta hlýtur að vera áfall fyrir Ólaf en auðvitað vona ég að hann taki mið af þessu og hlusti á þau skilaboð sem hann er að fá frá fólkinu í landinu og vilji vera forseti allrar þjóðarinnar, ekki pólitískur forseti hinna gömlu samherja sinna í Alþýðubandalaginu og þeirra úr þeim flokki sem nú eru í Samfylkingunni," segir Davíð Oddsson ennfremur.

Spurður hvort sú ákvörðun forseta að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar hafi að hans mati ráðið miklu um niðurstöðu kosninganna sagði Davíð: "Þessi atlaga gegn þinginu, sem er alveg óþekkt hér á landi og enginn hafði gert ráð fyrir að nokkur forseti myndi nokkru sinni gera, hlýtur að skýra þennan mun. Ef það er ekki hún sem skýrir þennan mun, hvað er það þá? Þetta eru viðbrögðin við því. Fólki þykir vænt um forsetaembættið og vill ekki láta fara svona með það," segir hann.

Hlýtur að vera reiðarslag

- Getur forsetinn að þínu mati ekki litið á úrslitin sem sigur?

"Ef hann gerir það, þá er hann bara að hugsa sem stjórnmálamaður, sem nægir að hafa 40% atkvæðisbærra manna á bak við sig. En ef hann vill vera forseti allrar þjóðarinnar, þá hlýtur hann að vera mjög sleginn. Þetta hlýtur að vera reiðarslag fyrir hann, því það hefur myndast hyldýpisgjá á milli hans og þjóðarinnar," svarar Davíð.

Spurður hvort þessar kosningar muni setja mark sitt á næsta kjörtímabil forseta og embætti forseta til lengri tíma litið segir Davíð: "Ég vona að Ólafur Ragnar geri sitt til þess að forsetaembættið jafni sig eftir þetta, því fólkinu í landinu finnst vænt um þetta embætti og vill ekki að það sé eyðilagt."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert