Í umræðum að loknum forsetakosningum hefur Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vikið nokkrum orðum að Morgunblaðinu og umfjöllun þess um forsetakosningarnar alveg fram á kjördag. Í fyrstu viðbrögðum við úrslitunum hafði hann a.m.k. tvívegis orð á því, að "öflugasta og elzta" dagblað landsins hefði verið sér andsnúið í aðdraganda kosninganna og virtist líta á það sem skýringu á að hann hefði ekki hlotið betri kosningu en ella. Smátt og smátt færði forsetinn sig upp á skaftið í gagnrýni sinni á Morgunblaðið og í gær sagði hann að Morgunblaðið hefði "stundað kalda stríðs blaðamennsku" og hefði verið eini fjölmiðillinn, sem hefði haldið uppi "markvissri og hatrammri" baráttu gegn sér.
Jafnframt sagði forsetinn, að blaðið hefði haldið þessari baráttu uppi í leiðurum, Reykjavíkurbréfum og fréttum, bæði forsíðufrétt á kjördag og öðrum fréttum.
Alveg sérstaklega hefur forsetinn haldið því fram, að frétt á forsíðu Morgunblaðsins á kjördag um breytta hætti varðandi birtingu upplýsinga um fjölda auðra seðla hefði verið eins konar tilkynning til landsmanna um að þeir ættu að skila auðu.
Það er auðvitað staðreynd, að sú breyting, sem þarna varð á var verulega fréttnæm í ljósi þeirra vísbendinga, sem fram höfðu komið um fjölda auðra seðla. Hér var því um eðlilegt fréttamat að ræða og upphlaup forsetans af þessu tilefni gamaldags pólitík. En það er auðvitað móðgun við þá 28 þúsund Íslendinga, sem skiluðu auðu að halda því fram, að þeir hafi hlýtt einhverju meintu kalli Morgunblaðsins í þeim efnum eins og forsetinn gefur í skyn með orðum sínum. Forsetinn hefur líka sagt, að 28 þúsund auð atkvæði væru rýr uppskera í þessari meintu baráttu Morgunblaðsins og móðgar enn á ný þennan stóra hóp kjósenda, með því að lýsa þeim, sem "rýrri uppskeru" blaðsins.
Svo vill til, að miðvikudaginn 23. júní sl. birti Fréttablaðið skoðanakönnun, sem blaðið sjálft hafði framkvæmt. Þar kom fram, að forsteinn mætti búast við 70% atkvæða en að 20% þeirra, sem ætluðu að mæta á kjörstað mundu skila auðu.
Ólafur Ragnar Grímsson kemst ekki hjá því að horfast í augu við að 28 þúsund atkvæði spruttu upp úr grasrótinni og að umfjöllun Morgunblaðsins um forsetakosningarnar hafði ekkert með þá niðurstöðu að gera.