Þingfundi, sem hófst á Alþingi klukkan 15 í dag, lauk með uppnámi um hálfri stundu síðar þegar Halldór Blöndal sinnti ekki kröfum þingmanna stjórnarandstöðunnar um að fá að ræða fundarstjórn forseta og sleit fundinum. Áður hafði farið fram umræða um störf þingsins þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ríkisstjórnina harðlega fyrir að ætla að fella úr gildi lög, sem sett voru í vor um eignarhald á fjölmiðum og leggja þess í stað fram nýtt frumvarp um sama efni. Sögðu stjórnarandstæðingar að verið væri að hafa réttinn um þjóðaratkvæðagreiðslu af þjóðinni.
Í upphafi þingfundarins í dag voru lögð fram tvö frumvörp. Annað var frá ríkisstjórninni og fjallar um eignarhald á fjölmiðlum og hitt var frá stjórnarandstöðunni og fjallar um fyrirkomulag á þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til stóð að halda í ágúst um fjölmiðlalögin. Eftir umræðuna um störf þingsins lýsti Halldór Blöndal því yfir, að annað lægi ekki fyrir þessum fundi. Kröfðust stjórnarandstæðingar þess þá að ræða um fundarstjórn forseta og kallaði Steingrímur Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, m.a. að hann ætti rétt á að ræða um fundarstjórn forseta en Halldór sleit fundinum engu að síður. Boðað hefur verið til fundar á ný á miðvikudag.
Í upphafi þingfundar las Davíð Oddsson, forsætisráðherra, forsetabréf um að þingið væri kallað saman til að fjalla um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði staðfestingu á. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem lagt var fram í upphafi þingfundar, er hins vegar gert ráð fyrir að fjölmiðlalögin verði felld úr gildi og ný lög sett í þeirra stað. Í greinargerð með frumvarpinu segir að af því leiði að ekki gerist þörf á að bera lögin sérstaklega undir þjóðaratkvæði, enda gefist kjósendum kostur á að lýsa viðhorfi sínu til löggjafar af þessu tagi og þess meirihluta, sem að henni standi, í almennum kosningum áður en frumvarp þetta öðlast að öðru leyti gildi haustið 2007, verði það að lögum. Áður en til þess komi hafi þá nýkjörið þing öll tækifæri til að fjalla um þau á ný, breyta þeim og bæta eða jafnvel fella brott.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðum um störf þingsins í dag, að hann hefði aldrei órað fyrir því að ríkisstjórnin væri svo dauðhrædd við sín eigin fjölmiðlalög, að hún þyrði ekki að leggja þau í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og stjórnarskráin mælti þó fyrir um og þjóðin ætti rétt á. Það birtist hins vegar í frumvarpinu sem lagt var fram í dag.
Össur sagðist vera algerlega ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin hefði valið, að draga til baka fjölmiðlalögin en hygðist jafnharðan láta setja ný lög sem væru nánast alveg eins. „Þetta er sami grautur í sömu skál," sagði Össur og lýsti efasemdum um að þessi afgreiðsla væri í anda stjórnarskrárinnar og óverjandi frá sjónarhóli lýðræðisins.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að sú leið sem ríkisstjórnin hefði valið væri svo ósvífin að það hefði tekið hann nokkra klukkutíma að átta sig á því til fulls. Spurði Steingrímur hvort forseti Alþingis hefði skoðað hvort það frumvarp ríkisstjórnarinnar væri þingtækt og hvort ekki fælist í því óþingleg ætlan um að fara á svig við stjórnarskrána og að hafa með brögðum af þjóðinni réttinn til að kjósa um málið í samræmi við ákvæði 26. grein stjórnarskrárinnar.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að koma ætti í veg fyrir að málskotsréttur væri virtur og setja ný fjölmiðlalög. „Hvert er verið að fara? Vilja menn ekki fá dóm þjóðarinnar?" spurði Guðjón Arnar. Sagðist hann efast um að málsmeðferðin stæðist stjórnarskrá og þingsköp Alþingis og spurði hvers vegna Íslendinga yrðu að fara aðrar leiðir í lýðræðisþróun en þekktist í nágrannalöndunum.
Davíð Oddsson sagði að hvergi í heiminum þekktist, að til þjóðaratkvæðagreiðslu væri boðað með þeim hætti sem 26. grein stjórnarskrárinnar mælti fyrir um. Þá sagðist Davíð telja, að á fundi sem oddvitar ríkisstjórnarinnar héldu með fulltrúum stjórnarandstöðunnar í síðasta mánuði, hefði verið ágætt samkomulag um að Alþingi kæmi saman í dag. Í þessum efnum lægi fyrir, að lög tækju gildi, þrátt fyrir synjun forseta og það lægi einnig fyrir að ef þingið felldi slík lög úr gildi með lagasetningu þá væru lögin ekki lengur í gildi og engin synjun í gildi og sérstaklega þegar búið væri um hnútana eins og í nýja frumvarpinu, að séð væri til þess að þingkosningar hefðu farið fram áður en lögin tækju gildi. Sagðist Davíð telja að stjórnarliðar hefðu sýnt vilja sinn að hafa þetta mál sem skilmerkilegast.