Rúmlega tvítugur maður hefur verið dæmdur til að greiða 180.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og sviptur ökuréttindum ævilangt fyrir akstur undir áhrifum áfengis á Húsavík og nágrenni en hann var tekinn tvisvar á sömu bifreið sömu nóttina.
Brotin áttu sér stað í mars sl., en í fyrra tilvikinu var maðurinn stöðvaður innanbæjar á Húsavík klukkan 3:25 að nóttu en við mælingu reyndist vínandamagn í blóði hans 0,58‰.
Eftir fyrra atvikið hélt maðurinn áleiðis til Akureyrar á sömu bifreið því síðar sömu nótt, eða klukkan 5:48 kom lögregla að manninum þar sem bifreiðin hafði staðnæmst við afleggjara að bænum Kaldbak. Hafði hann ekið vegkanta á milli og mikið á öfugum vegarhelmingi og síðan út af þjóðveginum.
Manninum var tekið blóð öðru sinni og í seinna skiptið mældist vínandamagn öllu meira eða 1,74‰.
Maðurinn játaði brotin skýlaust. Borgi hann ekki sektina innan fjögurra vikna kemur 22 daga fangelsi í stað hennar. Hann var sviptur ökurétti ævilangt og dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. 110.000 krónu málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.