Það ER ákaflega alvarlegt að málum skuli vera svo háttað hjá þjóð sem er vel upplýst og kurteis alla jafna að 25 manns látist að meðaltali í umferðarslysum á ári hverju, 3.400 slasist og þar af um 700 varanlega. Leita þarf nýrra leiða til þess að fækka slysum og ein þeirra leiða gæti verið sú að setja tölvukubba í bíla og auka þannig eftirlit með akstri manna.
Þetta kom fram í máli Böðvars Bragasonar lögreglustjóra á fundi þar sem ársskýrsla embættisins fyrir árið 2003 var kynnt.
"Mér finnst umræða um þessi mál allt of lítil og við erum að streitast við sömu hlutina árum eða áratugum saman varðandi eitthvað sem við teljum að eigi að bæta umferðina en gerir það bara ekki."
Böðvar sagði ástæðu til að athuga hvort ekki mætti nýta tæknina enn frekar en gert er til þess að stemma stigu við slysum.
"Ég vil gera tillögu um að fjölga mjög eftirlitsmyndavélum í borginni, ná niður hraðanum í gegnum þá hluti og ég vil líka að það verði settur upp starfshópur til að kanna með hvaða hætti tæknin geti komið til varðandi bifreiðirnar sjálfar og ég er með þá hugmynd, sem er vel framkvæmanleg, að setja tölvukubb í hvern einasta bíl. Ef það ástand væri komið gæti lögreglan stöðvað bifreið og tengt kubbinn við sínar eigin tölvur og séð aksturslag bifreiðarinnar bæði þann dag sem athugaður er og líka það sem áður hefur gengið á."
Böðvar sagðist telja ástæðu til þess að reyna ný vinnubrögð því þau gömlu hefðu ekki sýnt nógan árangur.