Víða 20 stiga hiti á Norðurlandi

Sól og blíða er nú á Landsmóti ungmennafélaganna á Sauðárkróki …
Sól og blíða er nú á Landsmóti ungmennafélaganna á Sauðárkróki og nutu mótsgestir góða veðursins þar í dag. mbl.is/Eggert

Sumarlegt hefur verið um að litast víða á landinu í dag og hlýtt í veðri, einkum norðanlands. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að klukkan 13 hafi verið 20 stiga hiti víða á Norðurlandi, þó ekki alveg úti við sjóinn. Hæstur mældist hitinn á Reykjum í Fnjóskadal, en var var hitastigið 23,7 gráður klukkan 13. Þá var 22,7 stiga hiti á Mývatni. Sólríkt er um allt Norðurland, en öllu svalara er á suðvesturlandi. Draga á úr mestu hlýindunum um helgina.

Einar segir líka hlýtt á hálendinu, 19 stiga hiti er á Hveravöllum og 20,7 í Sandbúðum á Sprengisandi svo einhverjar tölur séu nefndar. Hann segir algengt að einu sinni á sumri komi 2 til 3 dagar þar sem verulega hlýtt sé á hálendinu.

Sunnanlands er öllu svalara, en á því svæði er hafgola og raki sem verið hefur í lofti vestanlands. Einar sagði að þó fari saman nú að loftið yfir landinu sé bæði hlýtt og þurrt og það sé fremur fátítt.

Gert er ráð fyrir að dragi úr mestu hlýindunum á morgun og sunnudag. Áfram verður bjart og fallegt veður um mikinn hluta landsins, en gert er ráð fyrir að ský dragi fyrir sólu vestanlands þegar líður á morgundaginn og gæti jafnvel rignt annað kvöld og aðra nótt á Suðvestur- og Vesturlandi og eins á Vestfjörðum.

Frá Mývatni. Þar er nú besta sumarveður, sól og hátt …
Frá Mývatni. Þar er nú besta sumarveður, sól og hátt í 23 stiga hiti. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert