„Reyndar ólst ég upp sem vinstrimaður og man til dæmis eftir því að hafa sýslað eitthvað fyrir Alþýðubandalagið á Siglufirði í kosningum 1978. Á lokaári mínu í menntaskóla skipti ég hins vegar um skoðun. Ég hafði verið að lesa bækur um frjálshyggju eftir höfunda á borð við Hayek og Friedman og þær höfðu sterk áhrif á mig. Mér fannst mikið vit í því sem þeir sögðu og rökin skynsamleg. En það sem gerði mig aðallega að hægrimanni var barátta þeirra fyrir frelsinu. Þá á ég ekki við frelsið eins og maður sá það fyrir sér sem vinstrimaður, það er frelsið til þess að græða, heldur frelsið til þess að fá að vera eins og maður vill vera og sækjast eftir því sem maður vill sækjast eftir," segir Illugi Gunnarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra meðal annars í Tímariti Morgunblaðsins um helgina.
Illugi hóf píanónám 5 ára gamall og gaf út fyrir stuttu geisladisk án titils í 300 eintökum með eigin píanóleik. Hann segist vera ánægður að flestu leyti með hvernig til tókst. „Maður verður að passa sig á að því að bera frammistöðu sína ekki saman við atvinnumenn í tónlist. Þetta er fyrst og fremst mitt hobbí og getur aldrei orðið annað. Kosturinn við útgáfu í takmörkuðu upplagi er sá, að þá er minni hætta á að fólk haldi að ég geri kröfu um það að vera tekinn alvarlega sem tónlistarmaður."
Þegar hann er spurður að því hvað hann hyggist gera í haust þegar Davíð Oddsson hættir sem forsætisráðherra segir hann erfitt að segja nokkuð til um það, „forsætisráðherra hefur ekki tilkynnt hvað hann muni taka sér fyrir hendur og mér finnst við hæfi að bíða með ákvarðanir um næsta starf þar til núverandi yfirmaður minn hefur tilkynnt hvað hann hyggst gera."