Danska konungsfjölskyldan gefur Listasafni Íslands málverk

Málverkið Svanir.
Málverkið Svanir.

Danska konungsfjölskyldan hefur ákveðið að færa Listasafni Íslands að gjöf málverkið Svani frá árinu 1935 eftir Jón Stefánsson. Málverkið var brúðargjöf íslenska ríkisins til Friðriks krónprins Danmerkur og Ingiríðar prinsessu þegar þau giftu sig árið 1935. Málverkið Svanir er eitt af höfuðverkum Jóns Stefánssonar og jafnframt eitt stærsta verk hans, 131x202 cm að stærð. Lasse Reimann, sendiherra Danmerkur á Íslandi, afhenti verkið í Listasafni Íslands í dag.

Listasafn Íslands segir að þessi gjöf sé mikið fagnaðarefni og það muni skipa mikilvægan sess í listaverkaeign safnsins. Verkið verði sýnt á sumarsýningu safnsins sem beri yfirskriftina Umhverfi og náttúra og verði opnuð á morgun.

Jón Stefánsson (1881-1962) var einn af frumherjum íslenskrar myndlistar í byrjun 20. aldar. Hann fæddist á Sauðárkróki og stundaði myndlistarnám í Kaupmanahöfn og við einaskóla Henris Matisses í París. Jón bjó lengi í Danmörku og tók virkan þátt í dönsku listalífi en reisti sér heimili og vinnustofu í Reykjavík árið 1929.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert