Halldór: Óþægilegt þegar lögfræðingar eru ekki sammála

Þingflokkur Framsóknarflokksins sat á fundi í dag og ræddi stöðu fjölmiðlafrumvarpsins, m.a. í ljósi þeirrar vinnu, sem unnin hefur verið í allsherjarnefnd við frumvarpið undanfarna daga. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði við fréttamenn eftir fundinn, að lítið hefði breyst í málinu annað en það að mismunandi fram hefðu komið frá lögfræðingum.

„Því er ekkert að neita að það er alltaf óþægilegt þegar lögfræðingar eru ekki sammála," sagði Halldór. „En það er ekki í fyrsta skipti. Það eru ekki allir sammála í Hæstarétti þótt Hæstiréttur komist að niðurstöðu. Ég hef alltaf litið svo á að löggjafarvaldið væri hjá Alþingi og Alþingi geti bæði numið lög úr gildi og sett ný lög."

Halldór sagðist því ekki vera sammála áliti þeirra Eiríks Tómassonar og Sigurðar Líndal um að ekki sé hægt að setja ný lög með sama frumvarpi og afnemur þau eldri. Sagðist Halldór ekki sjá muninn á því hvort lög um sama efni yrðu sett strax eða síðar.

Halldór sagði, að allsherjarnefnd væri að störfum og menn biðu þess að hún lyki þeim. Hann sagði að ekkert hefði verið rætt um breytingartillögur við frumvarpið innan þingflokks Framsóknarflokksins.

Halldór var spurður um niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var um helgina og sýndi að fylgi Framsóknarflokkurinn er 7,5%. Halldór sagði að margir hefðu verið óákveðnir í könnuninni en flokkurinn hefði áður séð lélegar tölur í skoðanakönnunum Fréttablaðsins gegnum tíðina og ekki mætti fjalla um skoðanakannanir eins og um kosningar sé að ræða. Þá mættu stjórnmálaflokkar ekki láta stjórnast af skoðanakönnunum og Framsóknarmenn hefðu oft þurft að taka erfiðar ákvarðanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert