Ósammála um túlkun lögfræðinga

Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir ekkert skrítið að uppi séu ólík sjónarmið um hvernig beri að setja ný lög um fjölmiðla með hliðsjón af stjórnarskránni. Löggjafinn hafi aldrei verið í þeim sporum áður að forsetinn hafi synjað lögum staðfestingar.

Hann tekur undir með þeim sem segja það ekki ganga að flokka umsagnir með eða á móti og telja svo í hvorum flokki fleiri lögfræðingar séu. "Þetta er þannig að við reynum og hlusta eftir rökunum. Við erum að ljúka þeirri vinnu. Núna tekur við að fara yfir umsagnirnar og þá er komin heildarmynd á málið."

Frestur til að skila inn umsögnum til allsherjarnefndar vegna fjölmiðlafrumvarpsins rennur út í dag en Bjarni getur ekki sagt til um hvenær nefndin lýkur störfum. Í dag koma fleiri á fund allsherjarnefndar en í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort einhver umsagnaraðili verður kallaður fyrir nefndina.

Segja rök Daggar Pálsdóttur sannfærandi

Bæði Össur Skarphéðisson, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segja að mjög sannfærandi rök hafi verið lögð fram í allsherjarnefnd í gær þess efnis að framlagning fjölmiðlafrumvarpsins bryti gegn stjórnarskránni. Benda þeir sérstaklega á rök Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns, að sérstök heimild þurfi að vera fyrir hendi í stjórnarskránni til að Alþingi sé heimilt að fella fjölmiðlalögin úr gildi eftir synjun forsetans. Í Danmörku sé slík heimild fyrir hendi sé lögum vísað í þjóðaratkvæði samkvæmt þargildandi reglum. Um þetta hafi verið fjallað 1944 og breytingartillaga lögð fram við stjórnarskrána, að gera Alþingi þetta kleift. Tillagan hafi hins vegar verið felld.

Össur segir að samkvæmt þessu hafi menn ekki ætlað Alþingi að geta fellt lög á brott eftir að forsetinn hafi synjað þeim staðfestingar og þannig komið sér hjá því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu.

Steingrímur segir þetta hafa líka komið fram í riti Ólafs Jóhannessonar um stjórnskipun Íslands þar sem segi að eftir synjun forseta sé málið úr höndum Alþingis og verði ekki afturkallað af því.

Bjarni Benediktsson segir þau sjónarmið sem heyrðust hjá gestum nefndarinnar í gær svipuð þeim sem hafi heyrst síðustu daga. Aðalálitaefnið sé með hvaða hætti þingið geti sett ný lög um fjölmiðla. Finnst honum hafa komið mjög sannfærandi rök fyrir því að þingið geti fellt núverandi fjölmiðlalög á brott. Þá vakni spurningin með hvaða hætti Alþingi geti sett ný lög um þetta efni. Settar hafi verið fram kenningar um að tiltekinn tími þurfi að líða frá því að fyrri lögin hafi verið numin úr gildi en aðrir leggi áherslu á að aðdragandi lagasetningarinnar sé ekki með þeim hætti að af honum megi leiða að farið sé á svig við synjunarvald forseta Íslands. Sigurður Líndal hafi kallað það stjórnarskrársniðgöngu ef megintilgangur lagasetningarinnar sé að forðast þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sé ekki lögmætur tilgangur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert