Allir ljósabekkir á opinberum sundstöðum í Reykjavík verða fjarlægðir þaðan fyrir lok þessa árs, að sögn Önnu Kristinsdóttur formanns Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, en frá þessu segir á vef Reykjavíkurborgar.
Er á síðunni vitnað í Bárð Sigurgeirsson, húðsjúkdómalækni, sem sagði í kvöldfréttum Útvarpsins þann 12. júní sl. að það væri sjálfsögð krafa að ljósabekkir yrðu fjarlægðir af opinberum stofnunum, sem ætlað er að bæta heilbrigði landsmanna og nefndi hann sundstaði sérstaklega.
Líkti hann því að hafa þar ljósabekki væri í líkingu við að selja tóbak á sundstöðum, enda sýni gögn ótvíræð tengsl milli húðkrabbameina og ljósabekkjanotkunar.