Um fjögurra króna verðmunur er á meðalverði bensíns í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum Hafnarfirði og Kópavogi. Meðalverð á 37 bensínstöðvum í Reykjavík er 105,31 króna á 95 oktana bensíni og 47,24 krónur á dísilolíu. Í Kópavogi er meðalverðið á 10 bensínstöðvum 101,14 krónur á 95 oktana bensíni en 44 krónur á dísilolíu. Meðalverð á átta bensínstöðvum er lægst í Hafnarfirði en þar kostar 95 oktana bensín að meðaltali 101,6 krónur og dísilolía er á 43,86 krónur.
Á mánudag hækkaði verð hjá bensínstöðvum Esso um tvær krónur á 95 oktana bensíni og hækkaði verð hjá Olís og Skeljungi í kjölfarið. Meðalverð á 95 oktana bensíni á stærstu sölustöðum Skeljungs er 105,84 krónur, hjá Esso 104,98 krónur og hjá Olís 104,94 krónur. Engar verðhækkanir hafa verið hjá Atlantsolíu en félagið er með tvær bensínstöðvar, aðra í Hafnarfirði og hina í Kópavogi. Meðalverð stöðvanna er 99,9 krónur á 95 oktana bensíni.
Hjá Ego er meðalverðið 101,33 krónur, Esso Express 101,70, Orkunni 102,45 og hjá ÓB 103,04.