Sex sinnum öruggara að aka Hvalfjarðargöngin en Hvalfjörðinn

Ný rannsókn þar sem metin er áhættan sem fylgir því að fara um Hvalfjarðargöngin leiðir í ljós að sex sinnum öruggara er að fara göngin en aka fyrir Hvalfjörðinn. Guðni I. Pálsson verkfræðingur gerði rannsóknina og lagði hana fram sem meistaraprófsritgerð við Tækniháskólann í Lundi í sumar. Ritgerðin nefnist Risk Management in Hvalfjord Tunnel og leiðbeinendur voru Håkan Frantzich og Björn Karlsson brunamálastjóri.

Hvalfjarðargöngin eru gerð samkvæmt norskum stöðlum, en í Noregi eru nokkur hundruð km af göngum og hefur aldrei orðið alvarlegt slys í þeim að sögn Guðna.

„Borið saman við ástandið áður en göngin komu til sögunnar er ljóst að öryggi hefur aukist til muna, en tölfræðilega er sex sinnum öruggara að nota göngin en gamla veginn fyrir Hvalfjörðinn,“ segir Guðni.

„Ég reyndi að skoða sem flestar hugsanlegar áhættur, s.s. umferðarslys, bruna og flutning með hættuleg efni, s.s. gas, bensín og sprengiefni.“ Guðni fékk út niðurstöður sínar með því að skoða líkur á banaslysum í göngunum og jafnframt líkur á bruna. Brunalíkurnar voru metnar með því að skoða tölfræði frá Evrópulöndum og meta tíðni slysa í öðrum jarðgöngum. „Ég reyndi að meta afleiðingar bruna með því að reikna út hitastig í göngunum og hversu eitraður reykurinn verður og áhrif þessa á fólk. Varðandi umferðarslysin notaði ég tölfræði sem til er um slysatíðni á þjóðvegum hérlendis.“

Guðni segir að ef miðað væri við venjulegan veg ofansjávar þvert yfir Hvalfjörðinn í stað jarðganga, ætti sá vegur að vera tíu sinnum öruggari en vegurinn fyrir Hvalfjörð, en göngin ná ekki svo háu öryggisstigi vegna aukinnar áhættu þar niðri, sérstaklega vegna bruna.

Í rannsókninni voru búin til líkleg brunatilvik í göngunum og reiknað út hvað gæti gerst ef kviknaði í einum fólksbíl. Prófaðir voru allir staðir í göngunum og prófuð ýmis tilbrigði með bruna, allt frá skásta tilvikinu upp í það versta, t.d. í miðjum göngum í mikilli umferð um verslunarmannhelgi. Reiknað var út að fólksbílsbruni myndi ekki kosta mannslíf, en ef kviknaði í tveim eða fleiri fólksbílum gæti slíkt hugsanlega farið að kosta mannslíf. Enn verri yrðu afleiðingarnar ef kviknaði í vöruflutningabílum, en á móti kemur að líkurnar á slíkum bruna eru minni. Fékk Guðni það út að afleiðingarnar af bruna í vöruflutningabíl gætu orðið allt frá engu mannsláti upp í mörg.

Varðandi tillögur til úrbóta segir Guðni að það vanti að yfirvöld setji viðmiðunarmörk um það hversu hættuleg umferðarmannvirki megi vera. „Aðaltillaga mín er sú að menn skoði áhættuna gaumgæfilega áður en ráðist er í framkvæmd jarðganga og skilgreini ásættanleg viðmiðunarmörk, því það er dýrara að gera ráðstafanir eftir á.

Ef kviknar í í miðjum Hvalfjarðargöngunum er 3 km gangur upp úr þeim, en til samanburðar er gerð krafa um það í húsbyggingum að ekki megi vera meira en 25 metrar í næsta útgang. Með því að grafa göng til hliðar við aðalgöngin og hafa neyðarútganga inn í þau með reglulegu millibili t.d. 250 metra, eins og sænskir staðlar segja til, um myndi öryggi aukast til muna. Það er vart framkvæmanlegt að grafa slík neyðargöng neðansjávar eftir á, en ég ímynda mér að með litlum tilkostnaði hefði mátt hafa Hvalfjarðargöngin aðeins víðari og steypa upp eldfastan millivegg og þar með aðskilja brunahólfin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert