Hraðakstur á veginum í gegnum Hallormsstaðaskóg er viðvarandi vandamál og einungis tímaspursmál hvenær alvarleg slys verða á þessum slóðum, að mati Reynis Arnórssonar, umferðarfulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Umferðarstofu á Austurlandi.
Reynir segir að umferð hafi aukist mikið á þessum slóðum eftir að virkjunarframkvæmdirnar hófust við Kárahnjúka og umferða stórra og þungra vörubíla sé nú umtalsverð um veginn. Að hans mati er það mjög slæmt að það þyrfti að beina svo mikilli umferð vörubíla á þessar slóðir en þar séu þúsundir sumarleyfisgesta á ferð á hverju sumri og mikið um börn og fullorðna á gangi á og við veginn.
Samkvæmt þremur hraðakönnunum sem Reynir gerði í júlí eru einungis 45% bílstjóra á réttum hraða, 50 km eða minna. Dæmi eru um að bíll hafi mælst á tæplega 100 km hraða sem er tvöfaldur hámarkshraði.
Reynir vill að yfirvöld geri meira í því að hægja á hraðanum í Hallormstað og setji upp einhverjar hindranir á þessum slóðum sem miða að því að fá bílstjóra til að hægja á sér. Ef ekkert verði að gert megi búast við alvarlegum slysi á þessum slóðum. Reynir segist hafa átt mjög gott samstarf við Vegagerðina og er því bjartsýnn á að brugðist verði við þessum ábendingum hans.