Ólafur Ragnar sver embættiseið í þriðja sinn

Ólafur Ragnar Grímsson verður settur inn í embætti forseta Íslands nk. sunnudag, 1. ágúst. Hann mun þá sverja embættiseið í þriðja sinn frá því 1996 þegar hann var fyrst kjörinn forseti.

Athöfnin hefst í dómkirkju Reykjavíkur en klukkan 15:30 verður gengið frá Alþingishúsinu yfir til dómkirkjunnar en þar mun biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, stýra helgistund í kirkjunni. Biskup býður öllum vígðum mönnum að sitja með sér í kór kirkjunnar.

Meðal gesta verða ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hæstaréttardómarar, alþingismenn og erlendir gestir. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra gegnir starfi forsætisráðherra í fjarveru Davíðs Oddssonar sem er að jafna sig eftir veikindi.

Eftir athöfnina í dómkirkjunni, klukkan 16, verður gengið aftur til Alþingishússins. Mun Lúðrasveit Reykjavíkur leika ættjarðarlög á Austurvelli bæði fyrir og eftir kirkjuathöfnina. Athöfnin mun halda áfram í fundarsal Alþingis. Í upphafi mun Ólafur Kjartan Sigurðarson einsöngvari syngja lag við undirleik. Að einsöng loknum mun forseti Hæstaréttar rísa úr sæti sínu, lýsa forsetakjöri og útgáfu kjörbréfs og mæla fram drengskaparheit að stjórnarskránni, sem forseta er ætlað að undirrita og prentað hefur verið í tveimur samhljóða eintökum. Eftir undirritun mun forseti Hæstaréttar ávarpa forseta Íslands og afhenda honum kjörbréf með árnaðaróskum. Forseti Íslands mun því næst ganga ásamt forsetafrú fram á svalir þinghússins og minnast fósturjarðarinnar. Forsetinn flytur að lokum stutt ávarp í þingsalnum. Loks syngur Dómkórinn þjóðsönginn undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar.

Öllum hefur verið heimilt að vera við helgistundina í kirkjunni meðan húsrúm leyfir, bæði uppi og niðri í þeim bekkjum sem ekki eru fráteknir fyrir boðsgesti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert