Gylfi Þ. Gíslason látinn

Gylfi Þ. Gíslason.
Gylfi Þ. Gíslason.

Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi prófessor, alþingismaður og ráðherra, er látinn á áttugasta og áttunda aldursári. Með honum er genginn einn fremsti og áhrifamesti forystumaður íslenzkra jafnaðarmanna á seinni helmingi 20. aldarinnar.

Gylfi var fæddur í Reykjavík 7. febrúar 1917, sonur hjónanna Þorsteins Gíslasonar, ritstjóra, og konu hans Þórunnar Kristínar Pálsdóttur.

Gylfi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1936, kandídatsprófi í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Frankfurt am Main árið 1939 og doktorsprófi frá sama skóla 1954.

Gylfi var hagfræðingur við Landsbanka Íslands og stundakennari við Viðskiptaháskóla Íslands 1939-40 og dósent þar 1940-41. Hann var dósent við Háskóla Íslands 1941-46 og prófessor við sama skóla frá 1946-56 og frá 1973-87.

Gylfi var þingmaður Alþýðuflokksins í rúma þrjá áratugi frá 1946 til 1978. Hann var mennta- og iðnaðarmálaráðherra frá 1956-58 og mennta- og viðskiptamálaráðherra frá 1958 til 1971.

Gylfi gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og var formaður hans frá 1968-1974. Hann var formaður Hagfræðingafélags Íslands frá 1951-59 og sat í Þjóðleikhúsráði frá 1954-1987. Þá var hann fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1956-65 og í stjórn Alþjóðabankans frá 1965-71. Hann sat í Norðurlandaráði 1971-78, var formaður Norræna félagsins 1984-91 og í stjórn Norræna hússins 1984-93.

Gylfi skrifaði mikið um hagfræðileg efni og stjórnmál og eftir hann hafa birst margar bækur um þau efni, þar á meðal kennslubækur. Hann skrifaði einnig fjölda ritgerða, greina og bókakafla, sem birst hafa í bókum og tímaritum hérlendis, á Norðurlöndunum og víðar, auk þess sem hann fékk fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Þá var Gylfi einnig höfundur margra sönglaga sem komið hafa út á hljómplötum í flutningi ýmissa listamanna.

Kona Gylfa er Guðrún Vilmundardóttir. Þau eignuðust þrjá syni og lifa tveir þeirra föður sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert