Lögbann sett á umfjöllun siðanefndar HÍ um mál Hannesar Hólmsteins

Hús Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg.
Hús Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi synjun sýslumannsins í Reykjavík við beiðni Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, um lögbann á það að siðanefnd Háskóla Íslands fjalli um kæru aðstandenda Halldórs Laxness vegna bókar Hannesar Hólmsteins um Halldór. Verður lagt fyrir sýslumann að leggja umrætt lögbann á í samræmi við beiðni Hannesar Hólmsteins. Héraðsdómari segir í niðurstöðu sinni, að verulegur vafi leiki á því að siðanefnd HÍ hafi nægilega stoð í lögum.

Skúli Magnússon, héraðsdómari, segist í niðurstöðu sinni telja, að setning siðareglna Háskóla Íslands og stofnun siðanefndar skólans hafi falið í sér íþyngjandi fyrirkomulag fyrir þá sem undir reglurnar og lögsögu siðanefndarinnar voru settir. Hvergi í lögum um Háskóla Íslands eða lögum um háskóla sé að finna sérstaka heimild til að setja siðareglur eða koma á fót úrskurðarnefnd um störf háskólaborgara. Það sé álit dómara að setning siðareglnanna og stofnun siðanefndarinnar geti hvorki helgast af almennu hlutverki háskólans eins og það sé skilgreint í lögum, né almennum heimildum yfirstjórnar háskólans til stjórnunar og skipulags innra starfs síns. Því leiki verulegur vafi á því hvort siðanefnd Háskóla Íslands hafi nægilega stoð í lögum og sé af þeirri ástæðu heimilt að fara með það mál sem varð tilefni að kröfu Hannesar Hólmsteins um lögbann.

Þá segist dómarinn jafnframt telja verulegan vafa leika á hvort réttur aðili innan Háskóla Íslands hafi sett þær reglur sem siðanefndin starfar eftir. Af þessum ástæðum sé það niðurstaða dómara að Hannes Hólmsteinn hafi gert nægilega sennilegt að áframhaldandi meðferð siðanefndarinnar á máli hans fyrir varnaraðila muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans.

Málvextir eru í stuttu máli þeir, að tilteknir aðstandendur Halldórs Laxness beindu í apríl sl. kæru til siðanefndar HÍ vegna bókarinnar Halldór, eftir Hannes Hólmstein. Í kærunni voru talin upp í fjórum liðum atriði sem kærendur töldu að fæli í sér brot gegn siðareglum og viðteknum sjónarmiðum um faglega starfshætti.

Hannes Hólmsteinn krafðist þess að kærunni yrði vísað frá. Siðanefndin ákvað að vísa hluta kærunnar frá en taka aðra hluta hennar til efnismeðferðar. Taldi nefndin að í málinu væru ákveðnir þættir sem ættu undir úrskurð dómstóla og lúti að meintum brotum Hannesar gegn höfundarétti samkvæmt höfundalögum. Hins vegar snúi kæran einnig að öðrum veigamiklum þáttum sem varði viðurkennd fræðileg vinnubrögð háskólakennara, svo sem vandvirkni í störfum og afstöðu til annarra fræðimanna, en slík atriði eigi að jafnaði ekki undir úrlausn dómstóla.

Siðanefndin taldi það utan verkssviðs síns að fjalla um meint brot á ákvæðum höfundalaga eða önnur meint brot Hannesar á réttindum annarra sem vernduð séu með lögum. Það sé hins vegar í fullu samræmi við markmið siðareglna Háskóla Íslands, að tekið sé á öðrum þáttum sem lúti að vandvirkni í vinnubrögðum, heilindum og heiðarleika kennara við skólann. Það sé megintilgangur siðanefndarinnar að meta slík atriði og fjalla um fræðistörf starfsmanna skólans þar sem lögum sleppi og að slíkt sé unnt án þess að taka afstöðu til meintra brota Hannesar á lögum.

Í framhaldi af þessari ákvörðun siðanefndarinnar höfðaði Hannes einkamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að fá ákvörðun siðanefndarinnar hnekkt að því leyti sem nefndin hafði ekki fallist á kröfur hans. Var stefna í málinu birt siðanefndinni 27. júlí 2004, en málið verður þingfest 2. september nk. Jafnframt óskaði Hannes eftir því að siðanefndin frestaði frekari umfjöllun um málið þar til niðurstaða lægi fyrir í héraðsdómsmálinu. Að fenginni umsögn kærenda ákvað siðanefndin að ekki væri ástæða til að fresta málsmeðferð fyrir nefndinni vegna málsóknarinnar og tilkynnti Hannesi þetta með bréfi 26. júlí 2004.

Hinn 27. júlí 2004 krafðist Hannes þess að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að siðanefndin tæki til efnismeðferðar 1. og 4. lið kærunnar. Sýslumaður hafnaði beiðninni með bréfi 29. júlí 2004. Í bréfi sýslumanns segir að ekki verði talið að í beiðni Hannesar hafi verið sannað eða gert sennilegt að athöfn sú, sem krafist væri að lagt væri lögbann við, brjóti gegn lögvörðum rétti hans. Verði því að telja bersýnilegt að skilyrðum laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri ekki fullnægt.

Hannes Hólmsteinn vísaði þessari niðurstöðu sýslumanns til héraðsdóms sem felldi í dag ákvörðun sýslumanns úr gildi og lagði fyrir hann að setja lögbann á umfjöllun siðanefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert