Nemendum fjölgar um 9% í Háskólanum á Akureyri

Í Háskólanum á Akureyri.
Í Háskólanum á Akureyri.

Um 1560 nemendur eru skráðir til náms við Háskólann á Akureyri og hafa þeir aldrei verið fleiri. Síðastliðið ár voru skráðir nemendur 1430 talsins og er því um rúmlega 9% aukningu að ræða.

Í október verður tekið í notkun rannsóknarhús við skólann en þar munu auðlindadeild og upplýsingatæknideild hafa aðsetur ásamt ýmsum aðilum sem tengjast starfsemi Háskólans og efla hana. Í tilkynningu segir, að með húsinu verði til fyrsta flokks aðstaða fyrir kennslu og rannsóknir í raunvísindum við háskólann og þar verði einnig miðstöð rannsókna- og þróunarstarfs á Norðurlandi.

Þá er verið að ljúka við byggingu á nýjum stúdentagörðum við Tröllagil. Í stúdentagörðunum verða 36 tveggja og þriggja herbergja íbúðir og fjögurra deilda leikskóli. Segir í tilkynningu að með þessu sé verið að bregðast við mikilli eftirspurn stúdenta eftir hagstæðu leiguhúsnæði og leitað var eftir samstarfi við Akureyrarbæ sem mun koma til móts við vaxandi þörf bæjarbúa fyrir leikskólapláss með rekstri leikskóla í byggingunni.

Nýjungar í námsframboði tengjast aðallega félagsvísinda- og lagadeild sem hefur annað starfsár sitt í haust. Þær námsgreinar sem kenndar eru í fyrsta skipti eru sálfræði, fjölmiðlafræði og samfélags- og hagþróunarfræði. Þá hefur verið bætt við nútímafræðina þannig að nú er mögulegt að ljúka henni með BA-gráðu. Nútímafræði er fjölfaglegt nám á sviði hugvísinda og veitir innsýn í tildrög og eðli nútímans. Þess má geta að Háskólinn á Akureyri er eini skólinn hér á landi sem býður upp á fyrri hluta nám í fjölmiðlafræði, nútímafræði og samfélags- og hagþróunarfræði.

Kennsla nýnema í grunnnámi hefst mánudaginn 23. ágúst nk. með dagskrá sem nefnd er velgengnisvika. Velgengnisvika er sérstök kynningarvika sem hefur það að markmiði að undirbúa nýnema fyrir nám og starf í háskóla. Þar er tölvuumhverfi og stoðþjónusta háskólans kynnt, auk þess sem nemendur nota tímann til að vinna saman og kynnast eldri nemendum og starfsfólki. Boðið er upp á hnitmiðuð og hagnýt undirbúningsnámskeið auk hópeflis og ætlast er til að allir nýnemar nýti sér þessa þjónustu. Með þessu móti er reynt að gera nýnemum aðlögun að háskólanámi auðveldari og leggja grunn að enn betri námsárangri. Þetta er í fjórða sinn sem velgengnisvikan er haldin, en hugmyndin er fengin frá erlendum háskólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert