Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti: Íslandssagan mikilvæg í þróun þingræðisins

Bill Clinton gekk niður Almannagjá ásamt fylgdarliði.
Bill Clinton gekk niður Almannagjá ásamt fylgdarliði. mbl.is

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, dásamaði Þingvelli; sögu þeirra og landslag, í heimsókn sinni til Þingvalla fyrir hádegi í gær. Clinton kom hingað til lands með einkaþotu um klukkan níu í gærmorgun. Eiginkona hans, Hillary Clinton öldungadeildarþingmaður, kom til landsins klukkutíma síðar, með bandarískri þingnefnd, sem John McCain öldungadeildarþingmaður, er í forystu fyrir. Clinton hjónin áttu fundi með íslenskum ráðamönnum síðdegis en í gærkvöld héldu þau af landi brott, áleiðis til Dublin í Írlandi. Þar hyggst Bill Clinton árita nýútkomna ævisögu sína.

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík var fyrsti viðkomustaður Bills Clintons en þaðan hélt hann og fylgdarlið hans til Þingvalla. Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, tók á móti Clinton á Hakinu við Almannagjá og fræddi hann um sögu staðarins. Gengu þeir niður Almannagjá, nutu útsýnisins frá Lögbergi og fóru að Valhöll. Að því búnu gaf Clinton sér tíma til að ræða við fréttamenn. „Mig hefur alltaf langað til að koma hingað,“ sagði hann. Bætti hann því við að hann þekkti vel til sögu Þingvalla og mikilvægi Íslandssögunnar í þróun þingræðisins. „Í mínum huga hefur Ísland og öll saga þess alltaf verið eins konar fyrirmynd mjög mikilvægs þáttar frjálsra ríkja. Ég hef lengst af starfað í opinbera stjórnkerfinu og ríkisstjórn þarf að hafa nægilegt vald til að gera það sem þarf í þágu fólksins en um leið verður að koma í veg fyrir misnotkun valds.“ Sagði hann að stór hluti af sögu upphafs Alþingis sýndi baráttu gegn slíkri misnotkun.

Mikið gildi

Clinton-hjónin heimsóttu Davíð Oddsson forsætisráðherra og eiginkonu hans Ástríði Thorarensen á heimili þeirra í Skerjafirðinum um þrjúleytið. Davíð sagði afar ánægjulegt að hafa fengið vini sína, Bill og Hillary, í heimsókn á heimili þeirra Ástríðar. „Við áttum saman afslappaða stund og nutum samverunnar mjög. Ég held að eftir þennan fund sé ég fjórum eða fimm dögum á undan áætlun hvað það varðar að ná heilsu á ný.“

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir heimsókn Clinton-hjónanna hafa mjög mikið gildi. „Þetta er mjög gott fólk sem hefur öðlast skilning á Íslandi, okkar málefnum. Við höfum haft tækifæri til að ræða varnarsamstarfið lítillega en sérstaklega vináttu þjóðanna og mikilvægi samstarfs Íslands og Bandaríkjanna í gegnum komandi tíma,“ sagði hann.

Miðbærinn á annan endann

Mikið uppistand varð í miðbæ Reykjavíkur þegar Bill Clinton fór þar um uppúr hádegi í gær. Clinton bragðaði íslenska pylsu, keypti handverk og skoðaði verk Errós á Listasafni Reykjavíkur. Hann var afslappaður og áritaði bækur og ræddi við vegfarendur.

Fjöldi fylgdi Clinton um miðbæinn, öryggisverðir, íslenskir sérsveitarmenn og lögreglumenn. Clinton virtist afslappaðastur af þeim öllum, íklæddur gallabuxum og peysu.

Vel fór á með þeim Ástríði Thorarensen, Hillary Clinton, Bill …
Vel fór á með þeim Ástríði Thorarensen, Hillary Clinton, Bill Clinton og Davíð Oddssyni. Þau áttu tæplega klukkustundar langan fund á heimili forsætisráðherrahjónanna í Skerjafirði. Morgunblaðið/Júlíus
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert