Lýsa áhyggjum af líkamsástandi íslenskra ungmenna

Íþróttakennarafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af líkamsástandi íslenskra ungmenna. Skorar félagið á yfirvöld mennta- og heilbrigðismála að tryggja íslenskum ungmennum daglega hreyfingu í skólastarfi, til að efla heilbrigði þeirra.

Í tilkynningu félagsins segir, að samkvæmt viðmiðunarstundarskrá í grunnskólum beri nemendum að fá að lágmarki 3 stundir á viku hverri í íþróttum og sundi. Við könnun menntamálaráðuneytisins sem gerð var árið 2000 hafi komið í ljós að um 14% grunnskóla kenni færri en tvær stundir vikulega í íþróttakennslu, líkams- og heilsurækt og um 15% skóla kenna ekki helming lögboðinnar sundkennslu þar af um helmingur þeirra í Reykjavík. Einnig hafi komið fram í þessari könnun að sumir skólar kenni í flestum bekkjum 4 stundir á viku og séu því nálægt því takmarki að bjóða uppá daglega hreyfingu í skólastarfi og uppfylla það t.d. með danskennslu og útivistartímum með bekkjarkennara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert