Tæplega 20% reykvískra barna og unglinga nota hjálma við hjólreiðar samkvæmt könnun sem Slysavarnafélagið Landsbjörg gerði helgina 21.-22. ágúst sl.
Könnunin náði til níu bæjarfélaga og var hlutfall barna og unglinga sem nota hjálma minnst í Reykjavík en mest á Dalvík og Akureyri, þar sem rúmlega 60% barna nota hjálma. Í aðeins þremur af níu bæjarfélögum var hlutfallið yfir 50%.
Sambærileg könnun var gerð um miðjan júní í sumar og var þá hjálmnotkunin 31% í Reykjavík. Í fréttatilkynningu frá Landsbjörg segir m.a að "athyglisvert [sé] að sjá að engin aukning [hafi] orðið í hjálmnotkun meðal barna og unglinga í Reykjavík þó að töluverð umræða hafi orðið um málið í sumar". Í tilkynningunni er ítrekað að það sé foreldra að brýna fyrir börnum og unglingum að nota hjálma þegar þau nota reiðhjól, línuskauta eða hlaupahjól.