Maður kom inn á veitingahúsið A. Hansen á Vesturgötu í Hafnarfirði um hálfellefuleytið í gærkvöldi og hjó mann sem var á veitingastaðnum ítrekað í höfuðið með öxi, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Hafnarfirði. Að því búnu fór árásarmaðurinn af staðnum en lögregla fann hann skömmu síðar í austurbænum í Hafnarfirði.
Lögregla segir að hún hafi áður haft afskipti af árásarmanninum vegna ofbeldismála. Maðurinn er nú í haldi lögreglu og bíður yfirheyrslu.
Maðurinn sem sleginn var í höfuðið var fluttur á slysadeild. Hann höfuðkúpubrotnaði og fékk slæman skurð í andlitið.