Mikilvægt er að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin leysi öryggismál af ýmsu tagi sameiginlega, til að mynda á sviði umhverfismála, skipulagðrar glæpastarfsemi og hvað varðar útbreiðslu vopna, að því er kom fram í máli Lailu Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar á fundi í Háskóla Íslands í dag. Þar ræddi hún um endurreisn samvinnu milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og um alþjóðalög.
Hóf Freivalds framsögu sína á umræðu um Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Fyrst vék hún þó stuttlega að samskiptum Svíþjóðar við önnur Norðurlönd. „Það er í raun óþarfi að taka fram að góð samskipti Norðurlandanna við hin Eystrasaltsríkin eru hornsteinn sænskrar utanríkisstefnu,“ sagði Freivalds. Benti hún á að norræn samvinna ætti sér langa sögu og hefði borið ýmsan árangur. Nefndi hún meðal annars hinn sameiginlega norræna vinnumarkað, samvinnu á sviði umhverfismála og fleira. Sagði hún að hið mikilvægasta við norræna samvinnu væri, að hún ætti sér djúpar rætur og nyti mikils stuðnings meðal íbúa hinna norrænu ríkja.
Þá vék Freivalds sögunni að stækkun Evrópusambandsins (ESB). Sagði hún að þrátt fyrir að sumir teldu að vægi norrænnar samvinnu minnkaði með stækkun ESB, væri hún öndverðrar skoðunar. Sagði hún að þrátt fyrir að Norðurlandaþjóðirnar hefðu valið að starfa á mismunandi vettvangi, en Danir, Finnar og Svíar eiga aðild að ESB og Íslendingar, Danir og Norðmenn að Atlantshafsbandalaginu (NATO), rýrði það ekki gildi norrænnar samvinnu. Einnig væri mikilvægt að norrænu þjóðirnar ynnu í auknum mæli með Eystrasaltsríkjunum. Benti hún á að eftir hrun járntjaldsins, og jafnvel fyrir hrun Sovétríkjanna árið 1991, hefðu Norðurlöndin farið að auka samvinnu við Eystrasaltsríkin. Norræna ráðherranefndin hefði komið á fót upplýsingaskrifstofum í Riga, Tallin og Vilnius áður en Sovétríkin hrundu. Næstu áramót fengju Eystrasaltsríkin aðild að Norræna fjárfestingabankanum og væru það tímamót.
Freivalds ræddi einnig um öryggismál Norðurlanda og sagði góða samvinnu nú eiga sér stað á þessu sviði, enda væru miklir hagsmunir í húfi. Mikilvægt væri að þróa áfram gott samstarf við Eystrasaltsríkin vegna mansals. Fleiri atriði skiptu hér máli. „Öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í tengslum við svæðið við Eystrasalt,“ sagði Freivalds. „Það er mikilvægt að við finnum sameiginlegar lausnir á öryggismálum af ýmsu tagi, til að mynda í umhverfismálum, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu vopna. „Það er einnig mikilvægt að auka samvinnu við lönd sem eru austan við hin nýju mörk ESB,“ sagði Freivalds en þær áskoranir sem við tækjumst á við værum í auknum mæli þær sömu alls staðar. „Við þurfum því að vinna saman að því að auka samvinnu við nýjar nágrannaþjóðir ESB,“ sagði Freivalds ennfremur.
Hafa mikilvægu hlutverki að gegna í alþjóðamálum
Freivalds fjallaði einnig um hlutverk Norðurlandaþjóða og Eystrasaltsríkja á alþjóðavettvangi og benti á að Norðurlönd hefðu ávallt verið boðberar fjölþjóðlegrar samvinni. Kvaðst Freivalds telja að Norðurlönd ættu að vinna bæði með stofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar og með svæðisbundnum samtökum líkt og til dæmis Afríkusambandinu og vísaði til þeirrar áherslu sem Norðurlönd leggja á alþjóðalög.
Sagði hún að þar sem ódæðisverk væru framin hefði alþjóðasamfélagið þann valmöguleika að beita refsiaðgerðum, eða afli, reyndust aðrar leiðir ófærar. Hins vegar væri nauðsynlegt að berjast áfram fyrir eflingu alþjóðalaga og því að styrkja stoðir Sameinuðu þjóðanna.
Freivalds vék að ástandinu í Darfur héraði í Súdan og sagðist telja að öryggisráð SÞ hefði gripið allt of seint til aðgerða í tengslum við ódæðisverkin þar. Eins og staðan væri þar nú væri nauðsynlegt að hjálpa fórnarlömbunum en jafn mikilvægt væri að þrýsta á stjórnvöld í Súdan að herða aðgerðir sínar gegn uppreisnarmönnum.
Um Norðurlandaþjóðirnar og hlutverk þeirra í alþjóðlegum átökum sagði Freivalds: „Ég tel að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin hafi mikilvægu hlutverki að gegna. Með tilliti til sameiginlegrar sögu okkar og gilda er mikilvægt að við höldum áfram að leggja áherslu á fjölþjóðasamvinnu á alþjóðavettvangi,“ sagði Freivalds og bætti við að áhersla á virðingu fyrir mannréttindum ætti að vera meðal hornsteina í stefnu Norðurlandanna.