„Þetta var mjög skemmtilegur fundur og góður andi á honum," sagði Davíð Oddsson, fráfarandi forsætisráðherra og verðandi utanríkisráðherra, við fjölmiðlamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun. „Það er auðvitað kátt, eftir þennan langan tíma, að getað lokið störfum af þessu tagi með þá tilfinningu að það sé sterk og góð sátt og samstarfsvilji innan ríkisstjórnar. Oftast er það nú svo þegar forsætisráðherra er að fara, þá er allt önnur stjórn að taka við og hann fer svona með pokann á öxlinni," bætti Davíð við.
Halldór Ásgrímsson sagði eftir ríkisstjórnarfundinn í dag, að það væri með ákveðnum trega sem hann yfirgæfi utanríkisráðuneytið, en hann tekur við forsætisráðuneytinu eftir hádegi á morgun. Hann sagði þó tilhlökkunarefni að takast á við ný verkefni.
Þá sagði hann að ríkisstjórnin hefði á ríkisstjórnarafundinum kvatt Davíð Oddsson sem forsætisráðherra með ákveðnum söknuði. „Við töluðum einmitt um það á þessum fundi að hann er búinn að stýra þessu afskaplega vel í gegnum þessi rúmu þrettán ár. En ég held að við séum öll sammála um það, að það er mikilvægast fyrir hann að ná fullri heilsu. Við erum sannfærð um það að það mun gerast en við teljum að hann þurfi að gefa sér góðan tíma í það."
Fram kom í máli Halldórs að aðrir ráðherrar en Davíð Oddsson myndu sinna ákveðnum verkefnum í utanríkisráðuneytinu. Þannig muni Geir H. Haarde taka að sér verkefni á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Sagðist Halldór telja það mjög jákvætt enda hefði Geir mikla reynslu og það skipti miklu máli hver verði þar, því Íslendingar séu byrjaðir að undirbúa framboð sitt til öryggisráðsins.