Halldór Ásgrímsson tekinn við embætti forsætisráðherra

Ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Frá …
Ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Frá vinstri eru Valgerður Sverrisdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðni Ágústsson, Björn Bjarnason, Árni Magnússon, Halldór Ásgrímsson, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Davíð Oddsson, Árni Mathiesen, Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Sturla Böðvarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Sverrir

Halldór Ásgrímsson tók við embætti forsætisráðherra af Davíð Oddssyni á ríkisráðsfundi á Bessastöðum nú eftir hádegi en Davíð tók við embætti utanríkisráðherra af Halldóri. Þá tók Sigríður Anna Þórðardóttir við embætti umhverfisráðherra af Siv Friðleifsdóttur sem verður óbreyttur þingmaður.

Á ríkisráðsfundinum var að tillögu Davíðs Oddssonar fallist á að veita Siv Friðleifsdóttur lausn frá embætit ráðherra og að skipa Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra í hennar stað. Jafnframt var að tillögu Davíð fallist á að veita honum og Halldóri Ásgrímssyni lausn frá þeim embættum og að skipa Halldór forsætisráðherra í hans stað.

Jafnframt var að tillögu Halldórs fallist á að skipa Davíð utanríkisráðherra. Davíð mun áfram fara með ráðuneyti Hagstofu Íslands.

Halldór Ásgrímsson er fæddur 1947 og því 57 ára gamall. Hann er 15. forsætisráðherra lýðveldisins og 20. forsætisráðherrann frá því embættið var stofnað við fullveldi Íslands 1918. Áður höfðu fimm menn gegnt embætti ráðherra Íslands með aðsetur hérlendis.

Halldór Ásgrímsson sagði eftir ríkisráðsfundinn, að það væri tilhlökkun að takast á við ný verkefni og framtíðina. Þegar fréttamenn spurðu Halldór hvort ekki væri hætta á að Davíð Oddsson færi að stjórna af hliðarlínunni svaraði hann að menn þyrftu að taka höndum saman og miklu máli skipti að hafa Davíð Oddsson í ríkisstjórninni.

Halldór sagði að skattalækkanir verði á dagskránni í haust eins og legið hafi fyrir og verið sé að vinna í fjölmiðlamálinu svonefnda, sem hvað mest var á dagskrá í sumar; sagði Halldór þó að ekki lægi svo mikið á í þeim efnum.

Um aðgerðir gegn hringamyndun sagði Halldór, að búið væri að skila skýrslu um íslenskt viðskiptaumhverfi og í kjölfarið þurfi að setja reglur sem stuðli að samkeppni. Halldór sagði þó að þær reglur mættu ekki vera of íþyngjandi og hvetja til þess að sem flest fyrirtæki verði í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert