R-listinn vísaði frá tillögu um mislæg gatnamót

Borgarfulltrúar R-listans vísuðu frá tillögu sjálfstæðismanna og fulltrúa F-lista í borgarstjórn að hefja undirbúning gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn.

Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, sagði að samþykkt hefði verið tillaga í samgöngunefnd að fela umhverfis- og tæknisviði Reykjavíkurborgar að undirbúa breytingar á gatnamótunum með þrjár akreinar fyrir beina strauma og tvær akreinar á öllum vinstri beygjur. Þetta ætti að fara fram samhliða undirbúningi að gerð Sundabrautar. Var jafnframt samþykkt að fela skipulags- og byggingasviði að vinna að framgangi þessa máls með Vegagerðinni

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði að sú tíu ára töf sem hefði orðið á hönnunar- og skipulagsvinnu borgaryfirvalda vegna umræddra gatnamóta væri stórlega ámælisverð. Nauðsynlegt væri að um þessa mikilvægu samgöngubót myndaðist samstaða í borgarstjórn. Þetta væru slysamestu gatnamót landsins samkvæmt útreikningum sérfræðinga.

Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-listans, sagði að greiðari umferð á þessum gatnamótum og um borgina alla myndi minnka loftmengun stórlega og stuðla að sjálfbærri þróun.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi R-listans, sagði minnihlutann í borgarstjórn vera á harðahlaupum frá því að takast á við þá valkosti sem væru uppi á borðinu. Það ætti bæði við valkosti á einstökum gatnamótum og varðandi gatnakerfið í heild.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert